Vegagerðin stendur frammi fyrir gríðarlegum áskorunum varðandi vegakerfið hér á landi að sögn Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar. Bergþóra setti brúarráðstefnu Vegagerðarinnar sem haldin var á Grand Hótel Reykjavík í dag. Á ráðstefnunni var meðal annars rætt um mikilvægi brúa sem sameiningartákns. Þá væru brýr ekki einungis brýr heldur grundvöllur velmegunar og samgöngumannvirki sem stytta leiðir fólks.
Bergþóra segir áskorunina felast fyrst og fremst í þeim breytingum sem orðið hafa á þjóðfélaginu með stóraukinni uppbyggingu ferðaþjónustunnar síðastliðinn áratug. Þá eigi mikil fjölgun ferðamanna til landsins stóran þátt í því sem og fólksfjölgun landsmanna.
„Þessari gríðarlegu fjölgun fylgja miklar áskoranir en þegar við vorum að vígja brúna yfir Jökulsá á Sólheimasandi síðastliðið sumar stóðum við á brú sem tíu árum fyrr hafði 400 bíla í umferð en dagana sem við stóðum þarna á brúnni slógu tölurnar 4000.“
Fækkun einbreiðra brúa er verkefni sem miðar jafnt og þétt að mati Bergþóru. Mikið hefur einnig verið gert varðandi merkingar við brýrnar til að koma í veg fyrir slys.
„Það eru 30 brýr eftir á hringveginum en þær hafa verið í forgangi hjá okkur, þeim fækkar um 3-5 á ári.“
Misjafnt er hvort einbreiðu brýrnar sem fyrir eru séu breikkaðar eða fjarlægðar alveg. Þá fer það aðallega eftir því hvort sveitarfélögin sjái sér hag í því að halda í þær.
„Í sumum tilfellum er verið að nýta þessar einbreiðu brýr undir göngu-,hjóla- og reiðstíga en stundum er einfaldlega heppilegast að þær fari.“
Sem dæmi um stór brúarverkefni á næstu árum má nefna nýju brúna yfir Ölfusá, brúna yfir Þorskafjörð og Öldu, brúna yfir Fossvog. Bergþóra segist gera ráð fyrir því að gengið verði frá samningi við verktaka á árinu um byggingu nýju Ölfusárbrúarinnar en forvali í það verkefni er lokið.
„Við vorum með svokallað alútboð þar sem verið er að biðja um hönnun og framkvæmd. Þetta er ekki einföld brú svo við vorum með svolítið miklar kröfur til hönnunar á þessa tegund brúar.“
Áætluð verklok Ölfusárbrúarinnar eru um 2026-2027. Byggingu á brúnni yfir Þorskafjörð er að mestu lokið en búið er að hleypa vatni undir hana og eru áætluð verlok hennar í lok næsta árs.
Þá hefur byggingu á Öldu, brúnni yfir Fossvog seinkað en að sögn Magnúsar Arasonar, byggingaverkfræðings hjá Eflu, mun taka allt þetta ár að ljúka hönnuninni en hönnunarsamkeppni um brúna var haldin árið 2021.
„Það er á áætlun að hefja fyllingar á þessu ári en steypuvinnan hefst ekki alveg strax.“
Magnús segir að búast megi við því að brúin opni í árslok 2026.
„Við höfum miðað við að verktíminn, byggingartími brúarinnar verði 2 1/2 ár, þannig hljóma núgildandi áætlanir.“
Alda mun sameina Reykjavík og Kópavog en ekki verður opið fyrir almenna umferð á brúnni. Hún verður einungis ætluð Borgarlínunni, vélknúnum ökutækjum og neyðarbílum sem og gangandi og hjólandi vegfarendum.