Tveir af forsvarsmönnum fyrirtækisins Plastgerðar Suðurnesja voru í dag dæmir til tveggja og þriggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi. Þyngdi Hæstiréttur þar með dóm yfir mönnunum frá því í héraði og Landsrétti.
Dómsmálið kom upp í kjölfar andláts manns sem lést árið 2017 eftir að hafa klemmst á búk í frauðkassasteypuvél. Er henni ætlað að pressa frauðefni saman í form svo úr verði frauðkasar. Sjúkraflutningamönnum tókst ekki að bjarga manninum sem lést af sárum sínum.
Fram kom fyrir héraðsdómi að verkstjóri hafði gert öryggisbúnað vélarinnar óvirkan sökum þess að öryggishurð var í sífellu að lokast og valda skemmdum á framleiðsluvörum. Fram kemur að starfsmönnum hafi ekki verið gert viðvart um óvirkni búnaðarins.
Upphaflega voru þrír ákærðir í héraði og voru þeir allir dæmdir í málinu. Verkstjórinn sem fjarlægði öryggisbúnað fékk 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi. Eigandi og framkvæmdastjóri annars vegar og eigandi og verkstjóri hins vegar voru hins vegar dæmdir til 30 daga skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi.
Eigendurnir tveir fóru með málið til landsréttar sem staðfesti dóminn.
Eigendurnir tveir áfrýjuðu og var málið tekið upp af Hæstarétti sem þyngdi dóminn yfir mönnunum. Fram kemur að annar mannanna var í orlofi þegar atvikið átti sér stað en rétturinn metur það sem svo að hann hafi borið ábyrgð engu að síður.
Í dómi Hæstaréttar segir að mennirnir hafi gerst sekir um brot gegn ákvæðum laga og reglugerða um vinnuvernd og hlutdeild af gáleysi í manndrápi af gáleysi.
„Ákærðu gegndu stjórnunarstöðum í fyrirtækinu þar sem banaslysið varð og höfðu jafnframt sem eigendur þess fjárhagslega hagsmuni af starfsemi þess. Við ákvörðun refsingar þeirra er óhjákvæmilegt að líta til þess að með vanrækslu á skyldum sínum á sviði öryggismála og vinnuverndar í fyrirtækinu og með því að bregðast ekki við þegar þeir fengu vitneskju um aftengingu á öryggisbúnaði hættulegrar vélar brutu þeir gegn grunntilgangi vinnuverndarlöggjafarinnar og áttu þátt í að maður beið bana við notkun vélarinnar,“ segir í dómnum.
Auk refsingar var mönnunum gert að greiða ríflega 1,5 milljónir króna í málskostnað.