Þorgrímur Þráinsson rithöfundur, fyrirlesari og fyrrum knattspyrnumaður, segir að ungt fólk sé undir stöðugu áreiti allan liðlangan daginn og að það geti reynst óstálpuðum börnum og unglingum erfitt að standast þær samfélagslegu kröfur sem gerðar eru til þeirra.
„Það er sótt að ungu fólkil, og flestum, með margvíslegum hætti nánast allan sólarhringinn, úr öllum áttum. Tæknin tröllríður öllu og skilaboðin eru skýr: Gerðu þetta! vertu svona! kauptu þetta, annars verður þú út undan. Það þarf sterk bein og öflugt sjálfstraust til að standast álagið,“ segir Þorgrímur í samtali við mbl.is
Þorgrímur hefur í 14 ár frætt nemendur í skólum landsins um allt sem viðkemur hollu líferni, svo sem mikilvægi svefns og félagslegrar virkni.
„Oft þegar ég stend fyrir framan nemendur, sem ég geri nánast daglega, fæ ég tár í augun vegna þess sem ég skynja, sé og upplifi. Mér finnst ég finna fyrir hjartslætti nemenda, finna hvernig þeim líður og hversu mikið þá þyrstir í þau tækifæri sem lífið hefur upp á að bjóða.“
Þorgrímur flytur 70-80 mínútna fyrirlestur í hvert sinn sem er sambland af fræðslu, myndböndum, staðreyndum og sögum.
„Í öllum tilvikum, þá meina ég í öllum tilvikum næ ég eyrum nemenda sem segir mér að nemendur geta setið kyrrir í 80 mínútur ef efnið er nógu áhugavert. Ég þori varla að segja frá því hvað ég er heppinn að fá að vera í þessu starfi ár eftir ár eftir ár.“
Þorgrímur segir það forréttindi að fá tækifæri til að hreyfa við ungu fólki, eins og kennarar gera á hverjum degi. Hann segir kennara geta verið mestu áhrifavalda í lífi nemenda.
Fyrir utan vinnu sína í skólum landsins hefur Þorgrímur tekið að sér fyrirlestra fyrir hin ýmsu íþróttafélög, svo sem yngri flokka í knattspyrnu, afrekshópa, fyrirtæki og landslið en þá býr hann til fyrirlestur sem honum finnst hæfa hverjum aldri fyrir sig.
Í grunninn vinnur hann þó alltaf með fyrirlesturinn Við erum ástfangin af lífinu sem er ætlaður nemendum í 10. bekk. Þorgrími finnst þó ekkert síðra að fá að vera með foreldrafundi og segja foreldrum frá þeirri fræðslu sem börn þeirra eru að fá.
Þorgrímur segir að hann gæti ekki hafa unnið þetta þarfa starf í öll þessi ár nema með styrkjum frá fyrirtækjum.
„Fyrirtæki líta á mitt framlag í skólakerfinu sem samfélagslega ábyrgð og þegar maður er búinn að koma svona oft í skólana með erindi sem heitir Við erum ástfangin af lífinu og skólastjórinn hlustar og kennarinn hlustar og kannski námsráðgjafi og fleiri að þá er bara eftirspurn eftir þessu.“
Þorgrímur segist finna fyrir auknu ákalli frá skólakerfinu að fá inn í skólana jákvæðan og uppbyggilegan fyrirlestur fyrir nemendur, sérstaklega eftir heimsfaraldurinn. Þá leggur hann mikla áherslu á mikilvægi góðs svefns og félagslegrar virkni í fyrirlestrum sínum.
„Nægur svefn er lykilatriði. Ef það er svindlað á svefni ganga nemendur reikulir inn í daginn og meðtaka síður mikilvæg skilaboð. Þeir missa þar af leiðandi af sjálfum sér! Holl næring, kröftug hreyfing, læsi, orðaforði og félagsleg virkni stuðlar að góðu jafnvægi og sjálfstrausti sem fleytir okkur langt í lífinu. Rauði þráðurinn hjá mér alltaf, sama hvort ég tala við fyrirtæki, foreldra, krakka eða afreksfólk er eftirfarandi: Berðu ábyrgð á sjálfum þér, þú munt uppskera eins og þú sáir.“
Þegar talið berst að óhóflegri símanotkun barna og unglinga og slæmum fyrirmyndum, líkt og Andrew Tate, sem tröllríða öllu á samfélagsmiðlunum í dag segist Þorgrímur hiklaust taka þá umræðu við nemendur.
„Ég sýndi þeim mynd af Andrew Tate og spurði strákana sérstaklega, hvort er þessi gaur meiri fyrirmynd en einhver annar sem ég finn? Hverjar eru ykkar fyrirmyndir?“ segir Þorgrímur. Þá segist hann spyrja krakkana ískalt út í það hvernig þeim detti til hugar að fylgja svona mönnum, gaurum sem mannskemmandi sé að fylgjast með.
Þorgrímur segir unga fólkið vera hjarta samfélagsins og þeir fullorðnu verði að hlúa að því.
„Krakkarnir okkar eru heilt yfir frábærir en þeir þurfa stuðning og það sem ég hef heyrt innan skólakerfisins er að það sé löngu tímabært að kennarar skili ábyrgð á uppeldi barnanna aftur til foreldra. Foreldrar verða að nenna að vera foreldrar í dag. Börnin okkar þurfa á okkur að halda, allan daginn og við þurfum að setja þeim mörk.“
Þá segir hann að lokum mikilvægt að kenna þeim að vera í núinu.
„Eini dagurinn sem skiptir máli í þínu lífi er í dag. Gærdagurinn er farinn og kemur aldrei aftur. Allt sem þú gerðir í gær er liðið, þú getur ekki breytt neinu og þá spyr ég oft: Hvað fóru margar klukkustundir í ekki neitt?“