Kærunefnd húsamála hefur úrskurðað um að leigusala beri að endurgreiða leigjanda sínum 20 þúsund krónur vegna þess að kannabislykt væri í geymslu félagslegu leiguhúsnæði og hún þar með ónothæf.
Leigjandi og leigusali gerðu með sér húsaleigusamning frá 1. september 2021 til 31. ágúst 2022. Um er að ræða tveggja herbergja íbúð með geymslu í kjallara. Nokkrum dögum áður en leigusamningur tók gildi hafi leigjandi skoðað íbúðina en ekki geymsluna því að sögn starfsmanns hafi ekki lyklar verið til staðar. Hafði leigjandi þó orð á að ólykt væri í einni nærliggjandi geymslu.
„Eftir afhendingu lykla að geymslunni hafi komið í ljós að það væri geymslan og hafi sóknaraðili þegar kvartað með tölvupósti um þá ólykt sem stafaði frá henni. Hann hafi ekki getað notað geymsluna frá upphafi leigutíma og því skilað lyklum að henni til gagnaðila fyrir þremur mánuðum. Hann hafi ítrekað og árangurslaust óskað eftir úrbótum af hálfu gagnaðila,“ segir í sjónarmiðum sækjanda.
Í sjónarmiðum leigusala segir að erfiðlega hafi gengið að fá að skoða geymsluna og staðfesta að um ólykt væri að ræða. Í tölvupósti frá leigjanda 5. september hafi komið fram að hann grunaði að um kannabislykt væri að ræða.
„Í erindinu hafi komið fram að lögreglu hefði verið gert viðvart, en B hafi ekki móttekið neitt frá lögreglu vegna umræddrar tilkynningar. Þá komi ekki fram til hvaða fagaðila sé vísað og hafi það ekki fengist upplýst,“ segir í sjónarmiðum verjanda.
Þá segir einnig að tölvupóstar hafi gengið milli leigusala og leigjanda fram í nóvember. Í tölvupósti dagsettum 1. október hafi leigusali fallist á að afsláttur yrði veittur af leigu vegna geymslunnar. Leigjandi hafi skilað lyklum að geymslunni 10. nóvember í viðtali hjá félagsráðgjafa.
„Eftir móttöku kærunnar hafi starfsmaður gagnaðila farið ásamt tveimur starfsmönnum þjónustumiðstöðvarinnar á staðinn til að kanna aðstæður þar sem nú sé lykill að umræddri geymslu í höndum gagnaðila. Við skoðun hafi ekkert athugavert komið í ljós. Geymslan sé tóm, að undanskildum einum flatskjá, og því ekkert sem geti gefið frá sé lykt af neinu tagi, enda hafi þar enga óeðlilega lykt verið að finna. Að mati gagnaðila sé ekkert sem gefi til kynna að geymslan sé ónothæf eða að um vanhöld á leigusamningi sé að ræða af hálfu gagnaðila annað en staðhæfingar sóknaraðila,“ segir þar enn fremur.
Í niðurstöðu kærunefndar segir: „Samkvæmt framangreindu verður að leggja til grundvallar að kannabislykt hafi fundist í einhverjum mæli í geymslunni a.m.k. á tímabilinu 5. september til 30. október 2021, eða í um tvo mánuði, en líklega hefði að stórum hluta mátt komast hjá mögulegu tjóni af þessum völdum ef sóknaraðili hefði hleypt varnaraðila inn í geymsluna eins og til stóð.“
Samkvæmt gögnum málsins var mánaðarleiga íbúðarinnar 137.620 kr. í september 2021 og 139.320 kr. í október sama ár. Leigðir fermetrar eru 66 og þar af eru 12 fermetrar vegna geymslu, en almennt verður að leggja til grundvallar að leiguverð vegna þeirra sé lægra en af íbúðarfermetrum. Er því hæfilegt að áætla að leigufjárhæð fyrir geymsluna sé um 17.000 kr.
Því var leigusala gert að endurgreiða leigjanda 20 þúsund krónur vegna umrædds tímabils.