Umboðsmaður Alþingis hefur komst að þeirri niðurstöðu að gjaldskrá Reykjavíkurborgar fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks tryggi ekki með fullnægjandi hætti að gjald fyrir þjónustuna sé sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu líkt og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga kveði á um.
Fram kom í kvörtun að umsókn um tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks hefði verið synjað því ekki væri gert ráð fyrir slíkum kortum eða magnafslætti í gjaldskrá sveitarfélagsins
Umboðsmaður birti álit sitt í dag og bendir þar á að löggjafinn hafi tekið sérstaka afstöðu til gjaldtöku fyrir þessa þjónustu og vísað þar til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk.
Eftir því sem unnt sé eigi að gera fötluðu fólki kleift að fara sinna ferða þegar og með þeim hætti sem það kjósi og á viðráðanlegu verði. Ekki sé því nóg að miða gjald fyrir þessa þjónustu við gjaldskrá fyrir almenningssamgöngur ef fatlað fólk greiði í raun umtalsvert meira en aðrir til að komast leiðar sinnar sem virðist raunin.
Þannig greiði fatlað fólk hálft almennt fargjald, 275 kr., fyrir hverja ferð nema ef pantað er samdægurs þá þarf að greiða fullt gjald 550 kr. En í samræmi við svör borgarlögmanns og miðað við u.þ.b. 55 ferðir með mánaðarkorti hjá Strætó bs., þá leggst ferðin fyrir fullorðna á 164 kr., 82 kr. fyrir aldraða og 49 kr. fyrir öryrkja.
Umboðsmaður mælist til að úrskurðarnefnd velferðarmála taki málið aftur til meðferðar ef eftir því verði leitað og leysi þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Þá benti umboðsmaður félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu á hugsanlegt misræmi milli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og leiðbeininga um akstursþjónustu við fatlað fólk sem ástæða gæti verið til að leiðrétta.