„Hann urraði á mig og ég fann andfýluna“

Eftir að hafa klifrað upp sjö hundruð metra háa skriðu í Altai fjallgarðinum í Mongólíu heyrði Ingólfur Davíð Sigurðsson mökunarhljóð snjóhlébarðans stutt frá sér. „Ég þurfti alveg að telja í mig kjark til að fara upp á brúnina.“ Þannig lýsir ævintýramaðurinn og ástríðuljósmyndarinn Ingólfur Davíð Sigurðsson augnablikinu þegar hann komst í rúmlega tuttugu metra fjarlægð frá snjóhlébarða.

Hann var svo nálægt karldýrinu að þegar það opnaði kjaftinn og urraði á hann þá fann hann andfýluna út úr kettinum. Hann var samt ekki í hættu segir hann og snjóhlébarðar forðast fólk og láta sig hverfa þegar þeir verða varir mannaferða.

Snjóhlébarði sem varð á vegi Ingólfs.
Snjóhlébarði sem varð á vegi Ingólfs. Ljósmynd/Ingólfur Sigurðsson

Ingólfur Davíð er gestur Dagmála í dag og segir frá sinni annarri ferð á vit þessara sjaldgæfu og sjaldséðu kattardýra. Að þessu sinni lá leið hans á slóðir afkomenda Gengis Khan í Mongólíu. Vopnaður ljósmyndavél náði hann og hópurinn sem hann var í að mynda sjö kattardýr á tíu dögum.

Fyrri ferð Ingólfs Davíðs var í Himalayafjallgarðinn og deildi hann þeirri ferðasögu með áskrifendum Morgunblaðsins. Nú er komið að framhaldinu og þá var eins og fyrr segir, för heitið til Mongólíu. Í myndskeiðinu sem fylgir fréttinni lýsir Ingólfur Davíð þessari reynslu sinni af því að komast í návígi við fullorðinn snjóhlébarða.

Þetta augnaráð segir allt sem segja þarf.
Þetta augnaráð segir allt sem segja þarf. Ljósmynd/Ingólfur Sigurðsson

Hann hefur þegar deilt miklu af efni úr leiðöngum sínum, bæði á Youtube og Instagram. Infaldasta leiðin til að finna þetta efni er að slá inn nafnið hans á þessum miðlum.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert