Harma ákvörðun Kópavogsbæjar

Sagnfræðingafélag Íslands harmar ákvörðun Kópavogsbæjar um að leggja Héraðsskjalasafn Kópavogs …
Sagnfræðingafélag Íslands harmar ákvörðun Kópavogsbæjar um að leggja Héraðsskjalasafn Kópavogs niður. mbl.is/Árni Sæberg

Sagnfræðingafélag Íslands harmar þá ákvörðun Kópavogsbæjar að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í dag. 

Samþykkt var á bæjarstjórnarfundi í Kópavogi í gær að leggja Héraðsskjalasafn Kópavogs niður.

Í yfirlýsingu sagnfræðingafélagsins segir að stofnunin sinni mikilvægu hlutverki bæði við að varðveita skjöl og við að safna skjölum hins opinbera, félagasamtaka og einstaklinga. Þá gegni Héraðsskjalasafnið menningarhlutverki í Kópavogi og hafi stutt við útgáfu ýmissa rita sem tengjast sögu bæjarins. 

„Að mati Sagnfræðingafélagsins er það varhugaverð þróun að leggja niður héraðsskjalasöfn, líkt og var nýlega ákveðið að gera í tilviki Borgarskjalasafns. Þannig tapast sérfræðiþekking og menningar- og rannsóknarstarfsemi í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Skjalasöfn eru eitt mikilvægasta tólið við rannsóknir á sögunni og munu þessar ráðstafanir vafalítið koma niður á íslenskri sagnfræði og öðrum fræðigreinum hér á landi.

Sagnfræðingafélag Íslands skorar á Kópavogsbæ að endurskoða þessa ákvörðun sína. Jafnframt skorar félagið á önnur íslensk sveitarfélög að fara ekki þessa sömu leið heldur standa vörð um sögu og menningararf með öflugri skjalavörslu og rannsóknum,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert