„Hvar er mannauðurinn í þessari jöfnu?“

Steinunn Þórðardótt­ir, formaður Læknafélags Íslands, kveðst ekki sjá margt annað …
Steinunn Þórðardótt­ir, formaður Læknafélags Íslands, kveðst ekki sjá margt annað í áætlun stjórnvalda en að klára eigi byggingu nýs Landspítala. mbl.is/Hari

„Miðað við titilinn á þessari áætlun finnst mér þetta nú frekar þunnt, þarna er í raun bara verið að slá því föstu að það eigi að klára að byggja spítalann,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is um heildstæða áætlun um uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins til ársins 2030 sem þrír ráðherrar kynntu fyrir réttri viku.

Steinunn er nýsnúin heim af fundi Alþjóðasamtaka lækna í Kenía og dróst því að heyra álit hennar en sem fyrr segir kveður hún áætlunina einkum snúast um að ljúka eigi við byggingu spítalans „sem ég hélt nú að væri augljóst mál og mér fannst líka athyglisvert að sjá tölurnar sem þarna var verið að kynna um fjárfestingu í nýja spítalanum alveg frá 2010, þá sér maður að þetta eru bara smápeningar fram til síðasta árs þegar loksins er farið að spýta eitthvað í lófana“, segir formaðurinn.

Kveðst hún hafa saknað umfjöllunar um aðra þætti heilbrigðiskerfisins í kynningunni „sem okkur var reyndar ekki boðið til“, segir hún og á þar við fulltrúa stéttarfélagsins. „Þarna er ekki talað um neina aðra þætti en steinsteypuna við Hringbraut, að það eigi að klára þetta hús. Auðvitað fagnar maður því að það eigi að klára það, ég yrði býsna svekkt ef það væri ekki á stefnuskránni,“ heldur Steinunn áfram.

Fjölgun og öldrun

Jákvætt sé hins vegar að endurnýja eigi húsnæði geðþjónustunnar sem löngu sé tímabært. „Það finnst mér jákvætt og að hlúa eigi að öldrunarþjónustunni sem kemur þarna fram. En þarna eru líka kynntar tölur sem sýna gríðarlega fjölgun ferðamanna á landinu, mjög hraða fjölgun þjóðarinnar, mjög hraða öldrun þjóðarinnar og eina lausnin sem er kynnt er að klára spítala sem er löngu kominn á tíma og mun verða of lítill þegar hann er tekinn í notkun, hvenær sem það verður,“ segir Steinunn.

Bendir hún á að á bak við alla steinsteypuna virðist sjálft starfsfólkið gleymast. „Ég spyr, hvar er mannauðurinn í þessari jöfnu? Það er í raun ekki verið að kynna neitt sem bendir til þess að hlúa eigi að mannauðnum og tryggja að við getum mannað þetta heilbrigðiskerfi með fagfólki til framtíðar og það er það sem ég sakna,“ segir hún.

Ekkert í áætlun stjórnvalda gefi til kynna að ætlunin sé að leysa mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins eða bregðast við hindrunum sem dags daglega standi í vegi almennings þegar hann leiti eftir þjónustu heilbrigðiskerfisins. „Þannig að þetta er þynnri þrettándi en maður hefði búist við út frá titlinum.“

Komast ekki í bráðaaðgerðir

Segir hún héruð á landsbyggðinni stefna í að verða læknislaus auk þess sem á höfuðborgarsvæðinu sé biðin eftir að komast að hjá heimilislækni mæld í mánuðum. „Nú er bið eftir bráðaaðgerðum inni á Landspítala, fólk kemst oft og tíðum ekki í bráðaaðgerðir, til dæmis eftir beinbrot, nema eftir bið, hvað þá valaðgerðir og við erum aftur að sjá fjölgun fólks sem bíður eftir hjúkrunarheimili, sá biðlisti lengist bara og lengist. Þannig að mér fannst að þau [ráðherrarnir] væru að kynna þarna sjálfsagðan hlut og bara lítið brot af því sem þarf að gera,“ segir Steinunn enn fremur.

Þá nefnir hún samningsleysi sjálfstætt starfandi sérfræðinga sem enn sé blákaldur raunveruleiki eftir fjögur ár. Það samningsleysi geri ekkert annað en að hækka kostnað almennings sem sækja þurfi þjónustu þeirra. „Þarna er ríkið að spara sér gríðarlega fjármuni sem almenningur þarf að greiða úr eigin vasa og ég sé ekkert þarna [í áætluninni] um að til standi að bæta þar úr,“ segir Steinunn og minnist að lokum á óánægju heilbrigðisstétta með eigin kjör og starfsaðstæður.

„Maður sér ekki beinlínis að þarna birtist neinn vilji til að bæta þar úr,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert