Meiri ópíóðanotkun en áður

Sögur hafa gengið á samfélagsmiðlum undanfarna daga um að fentanyl …
Sögur hafa gengið á samfélagsmiðlum undanfarna daga um að fentanyl hafi verið pressað ofan í önnur fíkniefni á borð við kókaín, oxycontin, contalgin og LSD. Kjartan segist ekki hafa heyrt um slíkt utan samfélagsmiðla. Samsett mynd

Kjartan Jónas Kjartansson, yfirlæknir á fíknigeðdeild Landspítala, segir að á síðustu mánuðum hafi vandinn vegna ópíóðaneyslu vaxið. 

Fleiri hafi ánetjast ópíóðum og fleiri sæki sér meðferð við ópíóðafíkn. Hann kannast þó ekki við að meira magn af fentanýli sé á markaði en áður, en segir að fentanýl sé á markaði og eitt af þeim morfínskyldu lyfjum sem fólk ánetjast.

Lyf sem fólk getur dáið af 

„Við höfum ekki séð það nei. Við höfum ekki séð það á síðustu vikum eða mánuðum. Það er alltaf eitthvert fentanýl, en aðalefnin sem fólk er að nota eru contalgin og oxycontin. Þau eru alveg nógu hættuleg sjálf, lyf sem fólk getur dáið af ef það ofskammtar sig,“ segir Kjartan. 

Sögur hafa gengið á samfélagsmiðlum undanfarna daga um að fentanýl hafi verið pressað ofan í önnur fíkniefni á borð við kókaín, oxycontin, contalgin og LSD. Kjartan segist ekki hafa heyrt um slíkt utan samfélagsmiðla.

„Nei ég hef ekki heyrt sögur af því. Þetta er það sem er að gerast í Bandaríkjunum, en við höfum ekki heyrt um það hér,“ segir Kjartan.

Mikið magn af efnum í umferð

„Við sjáum meira af ópíóðanotkun. Það er greinilega mikið magn af efnum í umferð,“ segir Kjartan. 

Hann segist vita til þess að SÁÁ hafi tekið eftir auknum fjölda dauðsfalla í sínum hópi og að fleiri séu í meðferð við ópíóðafíkn en áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert