Villandi markaðssetning Nýju Vínbúðarinnar

Félaginu bar að birta sérstaklega upplýsingar um að ekki væru …
Félaginu bar að birta sérstaklega upplýsingar um að ekki væru einungis jólabjórar í jólabjóradagatalinu. Ljósmynd/Rósa Braga

Nýju Vínbúðinni er óheimilt að stunda viðskiptahætti á borð við þá sem viðhafðir voru í aðdraganda síðastliðinna jóla þegar verslunin seldi jólabjórdagatal. Neytendastofa birti ákvörðunina á heimasíðu sinni í vikunni. 

Fram kemur í ákvörðuninni að félaginu hafi borið að birta sérstaklega upplýsingar um að ekki væru einungis jólabjórar í jólabjóradagatalinu. Eins er áréttað að starfsemi félagsins falli undir gildissvið laga um neytendasamninga.

Með því að upplýsa neytendur ekki um rétt sinn til að falla frá samningi og neita þeim um að skila vörunni hafi Nýja Vínbúðin brotið gegn ákvæðum laga um neytendasamninga og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Skortur á upplýsingum um rétt til að falla frá samningi, skila vörunni, leiði til þess að réttur neytenda til að skila vörunni lengist úr tveimur vikum í 12 mánuði. 

Áður en ákvörðunin var birt hafði Nýja Vínbúðin samþykkt að kaupendur skiluðu þeim bjórum sem þeir höfðu ekki áhuga á að neyta, ásamt því að veita öllum kaupendum 2.000 kr. inneign í verslunina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert