Ætla ekki að láta misréttið yfir sig ganga

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

„Við teljum þetta brot á jafnréttislögum og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Kjaradeila ellefu félaga í BSRB og samn­inga­nefnd­ar Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga (SNS) stendur nú yfir, en BSRB hóf atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir í gær.

Deilan snýr að launamismuni félagsmanna BSRB og SGS, en BSRB hefur krafist launaleiðréttingu fyrir sitt fólk, þar sem félagsmenn SNS hlutu launahækkun 1. janúar, en BSRB ekki fyrr en 1. apríl 

„Það vantar upp á launahækkun fyrir janúar, febrúar og mars. Ef maður horfir á ársgrundvöllinn þá myndi þetta þýða 25 prósent lægri launahækkun fyrir okkar fólk.“ segir Sonja. 

Jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf

SNS vísar fullyrðingum BSRB á bug og vísa til þess að þau hafi ekki undirritað kjarasamning sem þeim var boðin árið 2020. SGS hafi undirritað kjarasamningin, með launaviðbótartöflu, og launahækkanir þar af leiðandi verið eftir því. 

Sonja segir hins vegar að launamismunun sem þessi sé ólögmæt. Fyrri dæmi séu til um dómsmál þar sem launamismunun á fólki í sama starfi var úrskurðuð óréttmæt, þrátt fyrir að atvinnurekandi hafi borið fyrir sig að starfsmennirnir væru í mismunandi stéttarfélögum og þar af leiðandi með mismunandi kjör. „Atvinnurekandi ber ávalt ábyrgð á að tryggja jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf,“ segir Sonja. 

Minnast ekki umfjöllunar um nýja launatöflu

Aðspurð hvers vegna BSRB hafi ekki undirritað kjarasamninginn á sínum tíma segir Sonja ágreining vera um hversu mikið ný launatafla hafi verið rædd. 

„Það minnist þess enginn okkar megin að það hafi verið fjallað um að það yrði ný launatafla sem myndi taka gildi í ársbyrjun.“ segir Sonja, en samningurinn var gerður í mars 2020. Viðræðurnar voru á lokaspretti og verkföll voru að hefjast hjá félagsmönnum BSRB.

„Það var bara mjög hörð kjaradeila líka þá gagnvart sambandinu, þannig allur þunginn í umræðunni fór í það.“   

Láta ekki misrétti ganga yfir sig

Spurð segir hún félagið að sjálfsögðu fara með málið fyrir rétt, komi til þess, en að vandamálið sé að það ferli sé langt og tímafrekt. Hún segist áhyggjufull um að sambandið muni nýta sér þá vitneskju og þann aðstöðumun sem þau hafa.

„Okkar fólk hefur ekki fengið launahækkanir síðan í apríl á síðasta ári og þau segja það mjög skýrt að þau ætla ekki að láta þetta misrétti ganga yfir sig.“ 

Atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir lýkur á laugardaginn og leiði niðurstaða til verkfalls verða fyrstu aðgerðir 15. og 16 maí næstkomandi. Fyrstu verk­fallsaðgerðir verða í Kópa­vogi, Garðabæ, Seltjarn­ar­nesi og Mos­fells­bæ þar sem starfs­fólk leik­skóla, grunn­skóla og frí­stunda­heim­ila mun leggja niður störf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert