Allt uppi á borðum varðandi kostnaðinn

Leiðtogafundur Evrópuráðs verður haldinn í Hörpu dagana 16. og 17. …
Leiðtogafundur Evrópuráðs verður haldinn í Hörpu dagana 16. og 17. maí næstkomandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aðildarríkin munu sjálf borga allan ferðakostnað sendinefnda sinna, líkt og uppihald og gistingu, auk þess að bera kostnað á eigin einkaöryggisgæslu á meðan á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Hörpu stendur. Þá mun Evrópuráð sjá um að fjármagna túlkaþjónustu. Þetta segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, verkefnisstjóri alþjóðamála hjá forsætisráðuneytinu.

„Endanlegar kostnaðartölur munu ekki liggja fyrir fyrr en að loknum fundi en þá mun allt vera uppi á borðum og allt koma fram,“ segir Rósa Björk innt eftir kostnaði við leiðtogafundinn. Þá segir hún að gert sé ráð fyrir því að kostnaðurinn slagi upp í tvo milljarða samkvæmt öllu bókhaldi.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, verkefnisstjóri alþjóðamála hjá forsætisráðuneytinu.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, verkefnisstjóri alþjóðamála hjá forsætisráðuneytinu. Ljósmynd/Bragi Þór Jósefsson

„Við höfum verið að vinna með þessa 1,8 milljarða tölu en hún er ekki staðfest, heldur er um að ræða nokkurs konar viðmiðunartölu. Það er mjög skýrt af okkar hálfu að við viljum hafa allt uppi á borðum og munum birta endanlegan kostnað en það getum við hins vegar ekki gert fyrr en að fundi loknum og allt er komið í hús,“ segir Rósa Björk og bætir því við að tölur muni koma frá bæði forsætis-, og utanríkisráðuneytinu sem og embætti ríkislögreglustjóra. 

Öryggisgæslan stærsti kostnaðarliðurinn

Að sögn Rósu Bjarkar borga aðildarríkin sjálf ferðakostnað síns fólks og sendinefnda sinna auk þess að bera kostnað á sinni eigin einkaöryggisgæslu.

„Þau dekka kostnaðinn við uppihald og gistingu hjá sínum sendinefndum á meðan á leiðtogafundinum stendur.“

Þá sjái Evrópuráðið alfarið um fjármögnun túlkaþjónustu sem verður mjög umfangsmikil.

Mikið hefur verið rætt um kostnað í sambandi við öryggisgæslu fyrir leiðtogafundinn en hún er stærsti kostnaðarliðurinn að sögn Rósu Bjarkar.

Þá er ekki búið að sundurgreina kostnaðinn við löggæsluna og því ekki hægt að birta tölu um hana strax þar sem sú tala sé ekki enn endanleg. Hvað varðar aðra kostnaðarliði nefnir Rósa Björk að mikill kostnaður fari í leiguna á Hörpu og einnig í tímabundnar ráðningar á fleira starfsfólki sem sé að vinna langt fram á kvöld við undirbúninginn.

Viljum gera okkur gildandi

Þegar Rósa Björk er spurð út í það með hvaða hætti menn meti svona alþjóðlegan viðburð sem auglýsingu fyrir þjóðina segir hún að ekki sé horft á fundinn í því samhengi.

„Við höfum frekar nálgast viðburðurinn þannig að hann er gríðarlega mikilvægur fyrir Ísland, að gera sig gildandi á alþjóðasviðinu, það er að segja að við getum í formennsku okkar í Evrópuráðinu staðið undir þeim væntingum að halda hér fjórða leiðtogafund í sögu ráðsins. Þannig að við viljum gera okkur gildandi í því og við viljum líka gera okkur gildandi gagnvart Evrópuráðinu, þannig að við séum að leggja okkar af mörkum til þess að styrkja Evrópuráðið á þessum tímum sem við lifum sem eru svo sannarlega mikil áskorun vegna innrásar Rússa inn í Úkraínu.“

„Ótrúlega stolt af okkur“

Rósa Björk segir áhersluna liggja í því að við gerum okkur gildandi sem alvöru þátttakendur á alþjóðasviðinu með því að halda fundinn. Þá segir hún mikilvægt fyrir okkur sem ríki að geta haft áhrif á niðurstöðu fundarins.

„Ég er ótrúlega stolt af okkur fyrir að vera í raun og veru líka að hafa áhrif á efnisvinnuna varðandi útkomu fundarins.“

Þá segir Rósa Björk það einstakt tækifæri fyrir okkur Íslendinga að nota þennan fund til að hitta æðstu embættismenn helstu þjóða á aþjóðasviðinu og ræða mál sem skipta máli fyrir Ísland á alþjóðasviðinu og í samskiptum við aðrar þjóðir.

„Ég myndi segja að það sé meginþunginn hjá okkur þegar við nálgumst þennan fund.“

Reykjanesbraut haldið opinni

Mbl.is birti mynd á dögunum af götulokunum í kringum Hörpu en aðspurð út í það hvort loka þurfi Reykjanesbrautinni þegar ferja þurfi leiðtogana til Reykjavíkur segir Rósa Björk að henni verði haldið opinni allan tímann.

„Það verður að sjálfsögðu fylgd fyrir þá leiðtoga sem koma um Keflavíkurflugvöll og forgangsakstur en það verða engar lokanir á Reykjanesbrautinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert