Alvarlegt bakslag eftir handaágræðsluna

Guðmundur Felix greindi í dag frá bakslagi eftir handaágræðsluna.
Guðmundur Felix greindi í dag frá bakslagi eftir handaágræðsluna. Ljósmynd/Aðsend

„Fyrir 2-3 vikum byrjaði ég að bólgna í kringum neglurnar og í kjölfarið fóru þær að detta af,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson í myndbandsfærslu sem hann birti inni á Facebooksíðu sinni fyrr í dag.

Rúm tvö ár eru liðin frá handaágræðslu Guðmundar en nú virðist komið ákveðið bakslag hjá honum þar sem læknar segja sýkingu orsökina.

Hafði litlar áhyggjur fyrst um sinn

„Um helgina fór ég að sjá rauða díla og í fyrstu hafði ég litlar áhyggjur en svo fór þetta að ágerast og dreifast.“

Eftir að hafa sent læknum sínum myndir voru tekin vefjasýni og hefur Guðmundur hafið steralyfjameðferð til að stöðva sýkinguna og koma í veg fyrir að hann hafni handleggjunum. Vandamálið virðist liggja í rót naglanna.

Vonar að lyfjameðferðin geri kraftaverk

Guðmundur segist vona hið besta en sá möguleiki sé til staðar að hann geti misst handleggina. Hann segir hendurnar þó virka vel þrátt fyrir þetta ákveðna bakslag. Læknarnir hafa aukið verulega við lyfjaskammtinn hans, úr fimm milligrömmum í fimmhundruð á dag.

Þá segir Guðmundur þetta ekki í fyrsta sinn sem slík einkenni höfnunar komi fram hjá honum en eðlilegt sé að slíkt geti gerst fyrstu vikurnar eftir ágræðslu. Þá sé ekki eðlilegt að einkennin komi fram meira en tveimur árum eftir aðgerð.

„Eins og staðan er veit ég ekkert en ég vona að lyfjagjöfin geri kraftaverk,“ segir Guðmundur að lokum og lofar því að leyfa fólki að fylgjast með stöðu mála hjá sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert