Byggð skerði nothæfi Reykjavíkurflugvallar

Ný byggð í Skerjafirði mun að óbreyttu þrengja að og …
Ný byggð í Skerjafirði mun að óbreyttu þrengja að og skerða nothæfi Reykjavíkurflugvallar vegna breytinga á vindafari. mbl.is/Árni Sæberg

Ný byggð í Skerjafirði mun að óbreyttu þrengja að og skerða nothæfi Reykjavíkurflugvallar vegna breytinga á vindafari.

Þetta er niðurstaða starfshóps sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra skipaði til að meta áhrif á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Skýrslan var birt í dag.

Starfshópurinn telur þó ekki þörf á að hætta við byggingahugmyndir í Nýja Skerjafirði og bendir á mögulegar mótvægisaðgerðir. Á meðal þeirra eru að takmarka hæð fyrirhugaðrara byggðar og skoða möguleg áhrif landslagsmótunar.

Starfshópurinn var skipaður í júlí 2022 og honum var falið að vinna flugfræðilega rannsókn á fyrirhugaðri byggð í Skerjafirði og rýna fyrirliggjandi gögn. Niðurstöður hópsins eru að mestu byggðar á rýni á fyrirliggjandi gögnum er byggja á rannsóknarvinnu sem fram hefur farið undanfarin ár á vegum Isavia og Reykjavíkurborgar.

Meðal mótvægisaðgerða sem starfshópurinn telur að væru til þess fallnar að draga úr neikvæðum áhrifum byggðarinnar eru:

  • Takmarka hæð fyrirhugaðrar byggðar í Nýja Skerjafirði við flötinn 1:35 frá miðlínu flugbrautar.
  • Skoða nánar hvort og hvernig draga megi úr áhrifum frá jöðrum fyrirhugaðrar byggðar í Nýja Skerjafirði með annarri útfærslu á skipulagi og með formun mannvirkja.
  • Skoða möguleg áhrif landslagsmótunar milli fyrirhugaðrar byggðar og flugvallarins til að draga úr áhrifum byggðarinnar.
  • Auka upplýsingagjöf til flugmanna um tiltekin veðurskilyrði, byggt á mælingum um kviku og vindskurð.

Þar fyrir utan leggur starfshópurinn til að óháð uppbyggingu í Nýja Skerjafirði verði eftirfarandi veðurrannsóknir gerðar á og við Reykjavíkurflugvöll:

  • Unnið verði úr veðurgögnum ISAVIA sem Veðurstofan hefur fengið og á þeim grunni lagt mat á kviku.
  • Ráðist verðir í frekari mælingar á kviku og vindskurði á flugvellinum.

Innviðaráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa tekið ákvörðun um að hafist verði handa við jarðvegsframkvæmdir og þar með undirbúning uppbyggingar í Nýja Skerjafirði. Þá mun Reykjavíkurborg í samvinnu við Isavia yfirfara ákvæði í deiliskipulagi sem lúta að því að takmarka áhrif vinds við uppbyggingu og útfærslu byggðar og landmótun í samræmi við ábendingar starfshópsins.

Isavia og Reykjavíkurborg munu jafnframt vinna áfram saman að mati annarra mótvægisaðgerða og öðru umhverfi Reykjavíkurflugvallar með það að markmiði að flug- og rekstraröryggi flugvallarins verði tryggt.

Fulltrúi Reykjavíkurborgar í starfshópnum undirritaði skýrsluna með bókun.

Þar segir m.a.: „Niðurstaðan er að fyrirhuguð byggð mun hafa í för með sér einhverjar breytingar en umfang þeirra er óverulegt. Ekkert hefur því komið fram sem bendir til að aðstæður fyrir flug á Reykjavíkurflugvelli raskist það mikið að byggingaráformum í Skerjafirði skuli annað hvort frestað eða þau slegin af.“

Í starfshópnum sátu Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður, Sveinn Valdimarsson frá Isavia innanlandsflugvöllum ehf., Ingvar Kristinsson frá Veðurstofu Íslands, Glóey Helgudóttir Finnsdóttir frá Reykjavíkurborg, Orri Eiríksson frá Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) og Þorgeir Pálsson frá Háskólanum í Reykjavík (HR).

Upphaflega stóð til að starfshópurinn skilaði skýrslu 1. október sl. en vegna viðbótar tæknivinnu, sem óskað var eftir, töfðust skilin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert