Í dag hratt Samgöngustofa með stuðningi VÍS af stað herferðinni „Ekki skúta upp á bak”. Herferðinni er ætlað að efla vitund fólks fyrir ábyrgð sinni við akstur rafhlaupahjóla eða rafskúta eins og þær eru kallaðar í herferðinni.
Fram kemur í tilkynningu að herferðin verði keyrð næstu vikur í ýmsum útgáfum og á margskonar miðlum.
„Á hverjum degi er gríðarlegur fjöldi fólks sem notar rafskútur. Þótt aðeins lítið hlutfall þess hóps gefi afslátt af öryggi sínu hefur það mjög alvarlegar afleiðingar sem sjá má í tölum slysaskráningar Samgöngustofu svo ekki sé talað um aukið álag á heilbrigðisstofnanir. Verst er þó vitanlega það tjón og þær tilfinningalegu byrðar sem viðkomandi og aðstandendur bera,“ segir í tilkynningu.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði af þessu tilefni að að vinsældum rafskútanna hefði fylgt ýmsar áskoranir og hættur.
„Notkun þeirra hafa fylgt fjölmörg slys, og ekki aðeins skeinur og skrámur, heldur því miður mjög alvarleg slys og tvö andlát,“ sagði hann.
Hann benti m.a. á að í nýlegri skýrslu Samgöngustofu hefði komið fram að um fjórðungur allra látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni árið 2022 hefðu verið á rafhlaupahjólum, eða 49 tilvik af 204. Sömu tölur fyrir fólksbíla væru 61 tilvik af 204 en á það yrði að líta að umferð fólksbíla væri margfalt meiri en rafhlaupahjóla.
Í sömu skýrslu hefði einnig komið fram að tvöfalt fleiri hefðu slasast á rafhlaupahjóli en á venjulegu reiðhjóli. Þá kæmi í ljós að 23% alvarlegra slysa á rafhlaupahjólum yrðu á svokölluðum „djammheimferðartíma“, seint á kvöldin á föstudags- og laugardagskvöldum.
Sigurður Ingi sagði að nú væri til umfjöllunar á Alþingi frumvarp sem hann hefði lagt fram um breytingar á umferðarlögunum til að auka öryggi notenda smá farartækja og annarra vegfarenda.
„Þar er m.a. lagt til að innleiða nýjan ökutækjaflokk smá farartækja í umferðarlög, að ökumenn verði að hafa náð 13 ára aldri og notendum yngri en 16 ára verði gert skylt að nota hjálm og að almennt bann verði við lagt við að breyta hraðastillingum.
Í öðru lagi höfum við lagt áherslu á að bæta innviði. Framlög til uppbyggingar göngu- og hjólreiðastíga aukist á undanförnum árum og áfram verður haldið á sömu braut. Mikilvægi slíkra innviða hefur aukist samhliða hraðri aukningu á umferð smá farartækja.
Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að bæta innviði. með áherslu á það að við sjálf sýnum ábyrgð og fyrirhyggju í umferðinni. Og þar kemur að tilefni þessa ágæta fundar – sem er hin nýja kynningarherferð,“ sagði ráðherra.