Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, segir fráleitt að halda því fram að málaflokkur fatlaðs fólks skýri hallarekstur Reykjavíkurborgar. Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 var birtur í Kauphöll í dag en reikningurinn verður til umræðu á fundi borgarstjórnar næsta þriðjudag.
Rekstrarhalli borgarinnar nemur 15,6 milljörðum vegna ársins 2022, en áætlun hafði gert ráð fyrir 2,8 milljarða halla. Rekstrarhallinn reynist því nær sexfaldur miðað við áætlanir.
„Það er athyglisvert að rýna hvar borgin fer fram úr áætlunum, en framúrkeyrslan nemur rúmum 13 milljörðum. Borgarstjóri gerir nú víðreist og segir þessa óvæntu stöðu aðallega skýrast af málaflokki fatlaðs fólks, en þegar betur er að gáð fór sá málaflokkur aðeins 664 milljónir umfram fjárheimildir, og skýrir því einungis brot af framúrkeyrslunni. Langveigamesti þátturinn eru rekstrargjöld sem fara nær 8 milljarða umfram áætlanir,“ segir Hildur í tilkynningu í dag.
Hún segir Sjálfstæðisflokkinn hafa lagt til við síðustu fjárhagsáætlun að rekstrargjöld yrðu skorin niður um 5% en tillögunni hafi verið hafnað af meirihlutanum.
Um áramót störfuðu 11.703 einstaklingar innan A-hluta borgarinnar, en þeir voru 9.346 árið 2017, og hefur fjöldinn því aukist um 25% yfir fimm ára tímabil.
„Starfsmönnum borgarinnar hefur fjölgað langt umfram lýðfræðilega þróun síðustu árin en yfir sama tímabil hefur íbúum borgarinnar aðeins fjölgað um 10%. Þetta er varhugaverð þróun og birtingamynd af bæði ofvöxnu kerfi og slæmum rekstri“, segir Hildur.
Að undanförnu hefur erfið fjárhagsstaða Árborgar verið mikið til umræðu. Í kynningu sem KPMG vann fyrir sveitastjórn Árborgar kom fram að yfir 5 ára tímabil (2016-2021) hafi íbúum Árborgar fjölgað um 27,4% en starfsmönnum um 40%. Var skekkjan talin tilefni til að taka rekstur sveitarfélagsins til endurskoðunar og ráðast í uppsagnir.
„Skekkjan í Árborg er engu alvarlegri en sú sem birtist okkur í Reykjavík. Munurinn er hins vegar sá að sveitastjórn Árborgar hefur kjarkinn til að bregðast við, en í Reykjavík er meirihlutinn með bundið fyrir augun“, segir Hildur.
Í kynningu KPMG kemur jafnframt fram að um 58.7% af heildartekjum Árborgar hafi farið til greiðslu launa og launatengdra gjalda árið 2022. Til samanburðar runnu um 60% af heildartekjum Reykjavíkur til greiðslu launa og launatengdra gjalda árið 2022. Sú staða sem vekur áhyggjur í Árborg er í raun verri hjá Reykjavíkurborg.
Hildur benti jafnframt á að starfsmönnum haldi áfram að fjölga árið 2023, en hlutfallslega mest fjölgun muni eiga sér stað í miðlægri stjórnsýslu, eða 13%. „Það þótti sérstök ástæða um áramót, til að samþykkja nýjar ráðningareglur sem byggja helst á því að ráða ekki í ónauðsynleg störf. Eins og það sé ekki fullkomlega sjálfsögð meginregla,“ segir Hildur.
„Á síðasta kjörtímabili óskaði ég eftir einfaldri útlistun á starfslýsingum þeirra sem starfa innan miðlægrar stjórnsýslu, svarið barst eftir langa mæðu og reyndist 600 blaðsíður! Segir það ekki alla söguna?“ segir Hildur. Hún segir jafnframt ekki síður lýsandi fyrir stöðuna að í liðinni viku hafi farið fram stjórnendadagur á vegum borgarinnar, þar sem um 600 stjórnendur hafi fengið boð um þátttöku. „Ástandið er orðið stjórnlaust og löngu tímabært að bregðast við,“sagði Hildur.