„Þetta er bara eitt af þeim málum sem er til skoðunar hjá ráðuneytinu,“ segir Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, í samtali við mbl.is um mögulega sameiningu Flensborgar og Tækniskólans.
Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) sendi frá sér tilkynningu í kvöld þar sem sagði að stefna stjórnvalda sé að sameina Tækniskólann og Flensborgarskólann, og sameina Kvennaskólann og Menntaskólann við Sund. SÍF gagnrýnir vinnubrögð ráðuneytisins og segja að ekki sé hlustað á raddir nemenda.
Hildur segir að möguleg sameining Tækniskólans og Flensborgar sé í fyrsta áfanga vinnu sem stýrihópur, skipaður af ráðherra hefur til skoðunar, en í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að gert sé ráð fyrir að tillögum verði skilað í áföngum til mennta- og barnamálaráðherra í maí, ágúst og október.
Hildur segir að skólameistarar skólanna muni skoða fýsileika sameiningar hratt og örugglega að beiðni stýrihópsins.
Spurð hvort að kennarar Tækniskólans séu slegnir yfir fréttunum segist Hildur ekki vita til að svo sé, en auðvitað fylgi öllum umræðum um mögulegar breytingar ákveðið óöryggi fyrir alla.
Hún segist þó ekki búast við umtalsverðum breytingum strax, ef af sameiningu verður.
„Á þessu stigi er bara verið að skoða samstarfs- og sameiningarmöguleika“ segir Hildur og bætir við að það sé þó ljóst að Tækniskólinn muni flytja í nýbyggingu í Hafnarfirði eftir nokkur ár.
„Frumkvæðið er ráðuneytisins og það er verið að skoða framhaldsskólamálin vítt og breytt. Það er kannski bara ágætt að það sé gert víða í einu og í stærra samhengi en sem snýr að sameiningu einstakra skóla. Það er verið að skoða allt kerfið á landinu og á endanum snýst þetta bara um að nýta fjármuni betur og veita sem besta þjónustu í þágu fjölbreytts nemendahóps.”
Hvorki náðist í Kolfinnu Jóhannesdóttur, skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík, né Helgu Sigríði Þórsdóttur, rektor Menntaskólans við Sund.