Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) segir að stefna stjórnvalda sé að sameina Tækniskólann og Flensborgarskólann, og sameina Kvennaskólann og Menntaskólann við Sund.
SÍF sendi frá sér tilkynningu þar sem sambandið fordæmir vinnubrögð mennta- og barnamálaráðuneytisins og segir vinnubrögðin vera léleg.
Á mánudag var greint frá því að ráðherra hafi skipað stýrihóp um eflingu framhaldsskóla. Verkefni hópsins er að móta aðgerðir til að ná markmiðum menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 og stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um eflingu verk- og starfsnáms.
Í tilkynningu SÍF segir að í hópnum séu ýmsir einstaklingar með mismunandi þekkingu og reynslu á málaflokknum en enginn framhaldsskólanemandi. Nemendur séu einu sérfræðingarnir um hvernig sé að vera nemandi í dag.
„Þar með mun rödd og skoðun nemenda ekki koma á borðið þegar viðamiklar breytingar eru á næstunni í skólakerfinu,“ segir í tilkynningu og þar er jafnframt bent á að ekki hafi verið leitað til nemenda eða hagsmunasamtaka nemenda um mögulega sameiningu framhaldskólanna.
„Þessi vinnubrögð eru ófagmannleg og ekki ásættanleg.“
Upplýsingafulltrúi ráðuneytisins og Þorsteinn Gunnarsson, sem leiðir stýrihópinn, neituðu að tjá sig er mbl.is ræddi við þá fyrr í kvöld.