Tap borgarinnar margfalt yfir áætlun

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík og Dagur B. Eggertsson …
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tap Reykjavíkurborgar af A-hluta starfseminnar nam 15,6 milljörðum króna árið 2022 en fjárhagsáætlun fyrir árið, með viðaukum, hafði gert ráð fyrir 2,8 milljarða tapi. Tapið var því 12,8 milljörðum yfir áætlunum, en þar af var annar rekstrarkostnaður 5,5 milljónum yfir fjárheimildum, hækkun lífeyrisskuldbindingar nam 2,8 milljónum umfram áætlun og nettó fjármagnsgjöld 5,9 milljónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir.

Til samanburðar nam tap af A-hluta starfseminnar 3,8 milljörðum árið 2021.

Heildareignir A‐hluta samkvæmt efnahagsreikningi í lok árs námu samtals 257,1 milljarði króna og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 174,5 milljarðar, eða sem nemur 112% af tekjum. Eigið fé nam 82,6 milljörðum króna.

Rekstrartekjur A‐hluta voru 1.9 milljörðum yfir áætlun, framlög jöfnunarsjóðs sveitarfélaga voru 1,4 milljörðum umfram það sem áætlun gerði ráð fyrir.

Lítið aflögu til afborgana

Skuldir A-hluta námu 174,5 milljörðum króna, eða sem nemur 112% af tekjum. Veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum nam 0,3% en áætlun með viðaukum hafði gert ráð fyrir að hlutfallið yrði 1,6%. Veltufé frá rekstri segir til um hversu hátt hlutfall af rekstrartekjum er til ráðstöfunar fyrir afborganir skulda eða fjárfestingar. Þess má geta að lágmarksviðmið Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga er 4,24% að teknu tilliti til hreinna skulda sem hlutfall af tekjum borgarinnar, sem var 84,8%.

Til A-hluta telst starfsemi sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð með skatttekjum en til B-hluta teljast fyrirtæki sem rekin eru sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar en eru að hálfu eða meirihluta í eigu borgarinnar.

Samantekin rekstrarniðurstaða A- og B‐hluta á árinu 2022 var jákvæð um tæpa sex milljarða króna en afkoma A‐ og B‐hluta var undir því sem áætlun gerði ráð fyrir, en það voru ríflega níu milljarðar króna. Heildareignir A‐ og B‐hluta samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi í lok árs námu samtals 870,3 milljörðum og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 446,4 milljarðar. Eigið fé nam 424 milljörðum króna, en þar af nam hlutdeild minnihluta 16,3 milljörðum.

Uppfært: Tölur um lágmarksviðmið Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga hafa verið uppfærðar í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert