„Mér líður ágætlega. Það er ekkert víst að þetta klikki,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson í samtali við mbl.is spurður hvernig honum líður.
Fyrr í dag birti hann myndbandsuppfærslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagði frá ákveðnu bakslagi vegna handaágræðslu sem hann fékk fyrir tveimur árum. Svo virðist sem sýking valdi því að líkaminn sé nú að hafna höndunum, því sé möguleiki á að hann geti misst handleggina en vandamálið virðist liggja í rót naglanna.
„Þetta eru pínu leiðindi og maður var ekkert alveg að búast við þessu en það eru miklu meiri líkur en minni að sú meðferð sem ég er að fá við þessu núna græji þetta,“ segir Guðmundur.
Hann verður á sjúkrahúsi að minnsta kosti næstu þrjá dagana þar sem hann er á sterkri steralyfjameðferð. Þá mun hann fá hærri skammt af lyfjum næsta mánuðinn.
„Samkvæmt öllu þá ætti það bara að duga til þess að koma mér aftur á „level“ og allt vera gott.“
Eðlilegt er að líkaminn hafni ágræðslunni á fyrstu vikunum, sem gerðist meðal annars hjá Guðmundi, en óeðlilegra er að slík höfnun verði er svo langt er liðið frá ágræðslunni, það er þó ekki óheyrt. Guðmundur segist vita til um tilfelli þar sem fólk hefur misst ágræðslurnar eftir tvö ár og síðan eftir 13 ár.
Hann segir það vera huggun í harmi að í þeim tilfellum hafi verið um að ræða fólk sem tók ekki lyfin sín reglulega, fékk einkenni þess að líkaminn væri að hafna ágræðslunni en gerði ekkert í því strax og/eða reykti. Ekkert af þessu á við Guðmund.
Guðmundir segir að hjá honum sé um að ræða áríðandi höfnun þar sem sjást rauðir flekkir á höndunum. Þá er hægt að grípa inn í með lyfjagjöf en ef höfnun er komin á annað stig, sem kallast krónísk höfnun, þá er ekkert hægt að gera nema taka ágræðslurnar af.
„Það er líklega ekki málið,“ segir hann og bætir þó við að óvissan sé mikil.
„Maður er búinn að leggja tár, svita og vinnu í þetta. Þetta er ekkert það skemmtilegasta.“
Guðmundur minnist á vin sinn sem fékk handaágræðslu fyrir einhverjum árum síðan og hefur misst neglurnar tvisvar sinnum, líkt og gerðist nú hjá Guðmundi. Hjá vininum hefur höfnunin gengið til baka með meðferðinni sem Guðmundur er nú að fá.
„Það er engin ástæða til þess að vera eitthvað að fríka út á meðan við erum enn innan þeirra möguleika sem eru í boði.“
Hann segir að staðan ætti að skýrast eftir helgina.
Guðmundur hefur verið duglegur að deila færslum um hvernig lífið gengur eftir handaágræðsluna með fylgjendum sínum.
Hann ákvað strax í upphafi að leyfa fólki að fylgjast með, sérstaklega fyrir aðra sem eiga eftir að ganga í gegnum sömu lífsreynslu þar sem geti reynst erfitt að leita sér upplýsingar um við hverju fólk eigi að búast.
Spurður hvernig síðustu tvö ár hafi verið segir Guðmundur að ótrúlegustu hlutir hafi gerst. Þó hafi orðið mikil vöðvarýrnun í höndunum sjálfum.
„Ég fór að geta hreyft putta og annað fyrir svolitlu síðan, en þetta eru vöðvar sem að ég er í raun með í framhandlegg sem beygja puttana,“ segir hann og bætir við að ýmsir litlir vöðvar í puttunum sjálfum sé orðnir ofboðslega rýrir.
Guðmundur hefur fengið ákveðna örvun með rafbylgjum í vöðvana sem eru engar taugar í strax frá því að hann fékk ágræðsluna til þess að hægja á hrörnunarferlinu.
Hann segir að fyrir einhverju síðan hættu hendurnar að gefa frá sér viðbrögð þar sem að vöðvarnir voru orðnir svo litlir.
„Svo bara fyrir nokkrum vikum síðan þá fáum við viðbragð í þessa vöðva með prógrammi sem er stillt á vöðva sem hafa þegar taugar,“ segir Guðmundur og bætir við að nú vanti hann bara tengingu við þessa vöðva í heilanum.
Hann segir að taugarnar vaxi bara einhvern veginn og nefnir dæmi að ef hann bítur í þumalinn finnur hann til í vísifingri.
„Bara það að vöðvarnir eru og þeir eru ekki dauðir þýðir það að ég mun geta unnið þá upp að einhverju leyti aftur,“ segir Guðmundur og bætir við að hann æfi fimm daga vikunnar til að styrkja vöðvana.
„Síðan í miðju þessu partýi þá byrja ég að verða allur út í einhverjum flekkjum,“ segir hann og játar að um ákveðinn rússíbana sé að ræða.
„Þetta tekur á en þetta er ánægjulegt engu að síður,“ segir Guðmundur að lokum.