„Þetta er kerfisbundinn vandi“

Borgarstjóri kveður fjárhagsvanda borgarinnar kerfisbundinn.
Borgarstjóri kveður fjárhagsvanda borgarinnar kerfisbundinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er kerfisbundinn vandi vegna þess að sveitarfélögin hafa fengið minna úr jöfnunarsjóði vegna málaflokks fatlaðs fólks þannig að niðurstaðan birtist ekki bara í niðurstöðu Reykjavíkur heldur í raun fjárhagslegum þrýstingi á aðra málaflokka,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á blaðamannafundi um ársuppgjör Reykjavíkur fyrir 2022.

Var hann þar að svara fyrirspurn úr sal um rekstrarútgjöld borgarinnar og hlutfall málaflokks fatlaðs fólks þar af. „Við höfum á undanförnum árum þurft að spara og gæta aðhalds í öðrum málaflokkum til þess að eiga fyrir málaflokki fatlaðs fólks. Fyrir Covid erum við með ágætisafkomu og ágætisveltufé frá rekstri í nokkur ár en engu að síður vorum við að flagga á það hvert einasta ár að það væri halli á þessum málaflokki fatlaðs fólks sem þarf að bæta sveitarfélögunum upp, ekki bara Reykjavík heldur þeim öllum,“ svaraði Dagur enn fremur.

Í erindi sínu sagði borgarstjóri að hópur, sem skila ætti niðurstöðu í lok þessa mánaðar, hefði bent á að hann þyrfti fram yfir miðjan maí til að skila tillögum um viðbrögð við stöðunni í málaflokki fatlaðra. Sagði Dagur að um væri að ræða vanda sem sveitarfélögin væru nú að súpa seyðið af, „en í raun má segja að öll framtíðaruppbygging í þágu þessa mikilvæga málaflokks, frekari búsetuúrræði og þjónustu við fatlað fólk, megi ekki líða fyrir einhverja fjárhagslega flækju ríkis og sveitarfélaga“.

Uppfært kl. 15:16:

Sagði borgarstjóri að á þessum vettvangi þyrfti að gera bragarbót á sem væri ekki eingöngu krafa Reykjavíkur heldur einnig annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og um land allt. „Við sjáum í ársreikningnum það sem við vorum að spá síðastliðið haust. Þess vegna er svolítið mikilvægt að rifja upp hvað við gerðum þá, hvernig brást borgin við?“ hélt Dagur áfram og sagði að þegar verðbólguáhrif hefðu komið inn í sex mánaða uppgjör borgarinnar hefði borgarráð samþykkt aðgerðir er verið hefðu fyrstu viðbrögð við þeirri stöðu sem þá var að koma upp.

Gestir og gangandi á fundinum.
Gestir og gangandi á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í fyrsta lagi rifuðum við seglin í fjárfestingum síðasta árs og drógum þær strax saman í sjö milljarða króna. Við leiðréttum gjaldskrár til þess að þær héldu raungildi sínu miðað við verðbólgu og settum samræmdar reglur um ráðningar til þess að auka aðhald á því sviði,“ sagði Dagur.

Segl rifuð í fjárfestingum

Stóra aðgerðin hefði hins vegar verið ný fjármálastefna og aðgerðapakki sem verið hefði hluti af fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun borgarinnar og samþykkt hefði verið undir áramót.

Þar hafi seglin enn verið rifuð í fjárfestingum og nokkrum stórum fjárfestingarverkefnum frestað, svo sem framkvæmdum við Grófarhús og Hafnarhús auk stórra verkefna við endurnýjun Laugardalslaugar sem lengi hefði verið á dagskrá.

Dagur B. Eggertsson og Alexandra Briem. Blaðamannafundur um fjármál Reykjavíkurborgar.
Dagur B. Eggertsson og Alexandra Briem. Blaðamannafundur um fjármál Reykjavíkurborgar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það sem við vörðum í fjárfestingunni voru fjárfestingar sem styðja við vöxt, fjárfestingar í nýjum hverfum eins og Ártúnshöfða, þar sem við vorum að bjóða út gatnagerð á dögunum, eins og Skerjafirði sem er ein af fréttum dagsins, nú er búið að eyða óvissu um það að við getum farið að selja lóðir þar, en líka öðrum nýbyggingarhverfum þar sem við erum að meðfjárfesta með einkaaðilum sem eru að byggja íbúðir,“ sagði Dagur.

Ekki dregið úr uppbyggingu leikskólarými

Kvað hann borgina í öðru lagi halda dampi í viðhaldsverkefnum og endurbótum á skólahúsnæði sem væri brýnt verkefni. „Þegar við erum að bæta svona hratt við íbúum, eins og staðan er í Reykjavík núna, þá byrjum við ekki á því að draga úr uppbyggingu leikskólarýma og fjárfestingu í skólum almennt.“

Þá benti borgarstjóri á verkefnabundna hagræðingu sem samþykkt hefði verið ofan á almenna hagræðingu fyrir 90 verkefni og væri með því verið að hlúa að rekstri borgarinnar skref fyrir skref það tímabil sem fimm ára áætlunin næði til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert