Lokun Héraðsskjalasafnsins í Kópavogi er nákvæmlega það sem margir höfðu áhyggjur af að myndi gerast í kjölfar ákvörðunar um að leggja niður Borgarskjalasafn. Þetta segir Arnór Gunnar Gunnarsson, formaður Sagnfræðingafélags Íslands.
„Vonandi er þetta ekki eitthvað sem heldur mikið áfram eða breiðist mikið út,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Sagnfræðingafélag Íslands hélt málþing í kvöld þar sem fjallað var um stöðu skjalasafna á Íslandi. Málþingið var haldið í kjölfar nýlegrar ákvörðunar um að leggja niður Borgarskjalasafn. Þar að auki var lokun Héraðsskjalasafns Kópavogs, sem tilkynnt var á þriðjudaginn, til umræðu.
Arnór Gunnar segist hafa áhyggjur af að ákvarðanirnar um að loka söfnunum séu gerðar í of miklum flýti. „Við bindum vonir við að þetta reddist hjá Þjóðskjalasafni, en það er ekki búið að útfæra það.“
„Annað sem mun glatast við þetta er þessi nánd safnsins við fólkið í sveitarfélögunum,“ bætir Arnór við og segir jafnframt að það starfsfólk sem vinni á héraðsskjalasöfnum sé sérfræðingar í sínum sveitarfélögum og í sögu þeirra, mörg hafi jafnvel stutt við rannsóknir á þeim.
Honum finnst þó Þjóðskjalasafn vera mjög flott stofnun, en hann hefur áhyggjur af því að verið sé að færa of mörg stór verkefni yfir til safnsins.
Í gær sendi Sagnfræðingafélag Íslands frá sér yfirlýsingu þar sem félagið kvaðst harma ákvörðun bæjarstjórnar um lokun safnsins. Þar kom fram að stofnunin sinni mikilvægu hlutverki bæði við að varðveita skjöl og við að safna skjölum hins opinbera, félagasamtaka og einstaklinga.