Vilja framlengja gæsluvarðhald yfir ungu mönnunum

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir lögreglu fara fram á fjögurra vikna …
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir lögreglu fara fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir mönnunum þremur sem þegar sæta gæsluvarðhaldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir þremur ungum mönnum sem þegar sæta gæsluvarðhaldi í tengslum við andlát karlmanns í Hafnarfirði í síðustu viku. 

Þetta staðfestir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. Mennirnir sættu gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna en nú verður farið fram á gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna. 

Héraðsdómur Reykjaness dæmir í málinu síðdegis í dag en vikulangt gæsluvarðhald yfir þeim rennur út klukkan fjögur. 

Stúlkunni sleppt fyrr í vikunni

Mennirnir voru handteknir í síðustu viku eftir að maður lést eftir átök á bílastæði Fjarðakaupa á fimmtudag í síðustu viku. Auk þeirra var 17 ára stúlka handtekin en Landsréttur felldi gæsluvarðhald yfir henni úr gildi í byrjun vikunnar.

Einn mannanna sem sætir gæsluvarðhaldi er í fangelsinu á Hólmsheiði en hinir tveir eru vistaðir á Stuðlum sökum ungs aldurs. 

Maðurinn sem lést var á þrítugsaldri og var af pólskum uppruna. Lögregla segir ekkert hafa komið fram við rannsókn málsins sem gefi til kynna að árásin tengist uppruna mannsins. 

Lögregla hefur undir höndum myndefni af árásinni en í tilkynningu fyrr í vikunni sagði að rannsókn miðaði vel áfram og að lögregla teldi sig hafa nokkuð skýra mynd af því sem leiddi til dauða mannsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert