Andlát: Ólafur G. Einarsson

Ólafur G. Einarsson
Ólafur G. Einarsson

Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í gær, níræður að aldri.

Ólafur fæddist á Siglufirði 7. júlí 1932 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Einar Kristjánsson (1898-1960) forstjóri og Ólöf Ísaksdóttir (1900-1987) húsmóðir. Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1953, stundaði nám í læknisfræði 1953–1955 og lauk lögfræðiprófi frá HÍ 1960.

Hann var sveitarstjóri í Garðahreppi 1960–1972, oddviti hreppsnefndar 1972–1975 og forseti bæjarstjórnar 1976–1978. Ólafur var kosinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1971 og sat á þingi til 1999. Hann var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins 1979–1991, menntamálaráðherra 1991–1995 og forseti Alþingis 1995–1999.

Ólafur sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1969–1971 og 1980–1991 og í framkvæmdastjórn flokksins 1981–1991. Hann var formaður Þingvallanefndar 1988–1991, varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs 1983–1986 og formaður 1986–1991. Hann sat í bankaráði Seðlabanka Íslands 1998–2007 og var formaður þess 2001–2006. Ólafur var formaður Hjálparstarfs kirkjunnar 1998–2000, formaður orðunefndar 2003–2010. Hann var útnefndur heiðursborgari Garðabæjar árið 2010.

Kona Ólafs var Ragna Bjarnadóttir, f. 21.11. 1931, d. 20.1. 2015. Þau giftu sig á aðfangadag 1955 í Akureyrarkirkju. Ragna var húsmóðir en vann áður á Raforkumálaskrifstofunni, síðar á skattstofu Reykjaness og bókasafni Garðabæjar. Dóttir þeirra var Ásta Ragnhildur, f. 17.1. 1968 en hún lést 15.1.2021. Eftirlifandi eiginmaður Ástu er Þröstur Sigurðsson, f. 7.3. 1966. Þau eignuðust þrjá syni: Ólaf Þór, Fannar Stein og Viktor Inga.

Ólafur ræddi við Morgunblaðið í tilefni 85 ára afmælis síns og við það tækifæri sagði hann:

„Árin eru orðin mörg, en ég get varla kvartað, heilsan alveg sæmileg og geðið gott. Ég hef verið bókamaður, og alltaf haft gaman af kveðskap og vísum, stjórnaði m.a. hagyrðingamótum. En mesta ánægjan var að veiða. Það hef ég gert lengst í Sandá í Þistilfirði. En nú er því lokið þó að minningar um sporðaköstin lifi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert