Borgin ekki beðið ríkið um aðstoð

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir það málefni hverrar sveitastjórnar að kafa …
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir það málefni hverrar sveitastjórnar að kafa ofan í reksturinn hjá sér og víða megi gera betur. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór yfir stöðuna á blaðamannafundi í gær. Samsett mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir borgina ekki hafa leitað til ríkisins eftir aðstoð vegna rekstrarhallans en líkt og fram hefur komið var rekstrartap Reykjavíkurborgar 15,6 milljarðar á síðasta ári sem er aukning um rúma 11 milljarða á milli ára.

Þá segir hún í samtali við blaðamann mbl.is að von sé á skýrslu á næstunni sem muni greina þetta vel og brugðist verði þá við í samráði ríkis- og sveitarfélaga. 

Katrín segir að samtal sé í gangi milli ríkis og sveitarfélaga almennt, sérstaklega um málaflokk fatlaðra, en ríkið bætti í framlög til sveitarfélaga í síðustu fjárlögum þar sem sá málaflokkur var mun umfangsmeiri en fyrirséð hafði verið.

Fleiri sveitarfélög eiga í erfiðleikum

Aðspurð að því hvort ríkið muni grípa boltann og koma borginni til aðstoðar svarar Katrín því til að horft sé á samskiptin út frá sveitarfélögunum almennt.

„Við erum með fleiri sveitarfélög sem eiga í erfiðleikum og þá skiptir mestu máli að greina vandann og þar er kannski málaflokkur fatlaðra efst á borði hjá þessum sveitarfélögum sem hafa verið að ræða við okkur.“

Katrín segir það málefni hverrar sveitastjórnar að kafa ofan í reksturinn hjá sér og telur að þar megi víða gera betur alveg eins og hjá ríkinu. 

„Það er nú sjaldnast eitthvað eitt en það er kannski þessi málaflokkur, ástæða þess að ég nefndi hann, að hann er það sem sveitarfélögin hafa sérstaklega sett fram í samskiptum sínum við ríkið.“

Erfitt að ná fram breytingum

Katrín telur mikla ástæðu til að taka heildstæða umræðu um stöðu sveitarfélaganna, fjölda þeirra og hvert við viljum stefna með stjórnsýslustigið. Þá segir hún mikilvægt að skoða fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

„Það er mín skoðun að við erum að gera þetta með okkar svolítið séríslenska hætti, tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það hefur verið erfitt finnst mér að ná fram breytingum, sem dæmi má nefna að nú erum við að leggja fram breytingar á jöfnunarsjóði sem virðast vera ansi umdeildar þannig að þetta hefur verið svona þungur málaflokkur að breyta en samt sem áður er ekki endilega mikil sátt um hvernig þá heldur honum er fyrir komið.“

Þá segir Katrín ákveðna þörf á umræðu um þetta mál og nefnir sem dæmi tillögu sem var lögð fram og átti að stuðla að því að við myndum sjá færri og stærri sveitarfélög en sátt náðist ekki um hana á þinginu.

„Það er auðvitað umhugsunarefni hversu treglega hefur gengið að ná fram svona umræðu og breytingum í þessum málaflokki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert