Breyta nálgun við útrýmingu riðu

Matvælastofnun verður heimilt að undanskilja frá niðurskurði fé sem sýnt …
Matvælastofnun verður heimilt að undanskilja frá niðurskurði fé sem sýnt er fram á að beri verndandi arfgerð. Því fé yrði því haldið í einangrun á viðkomandi jörð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur fallist á tillögu yfirdýralæknis um breytta aðferðafræði við að útrýma riðuveiki. 

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að tillagan felist í því að markvisst verði unnið að hraðari ræktun riðuþolins sauðfjárstofns á ræktunarsvæðum sem eru skilgreind sem áhættusvæði.

Þannig yrði Matvælastofnun heimilt að undanskilja frá niðurskurði fé sem sýnt er fram á að beri verndandi arfgerð. Því fé yrði því haldið í einangrun á viðkomandi jörð.

„Á þennan hátt má rækta upp fjárstofn með verndandi arfgerð á riðusvæðum samhliða því að styrkja sjúkdómavarnir,“ segir í tilkynningunni. 

Greina árlega 15 til 40 þúsund fjár

„Stjórnvöld munu gera það sem þarf til að styðja bændur við að rækta upp verndandi arfgerðir gagnvart riðu. Samkvæmt tillögunni verða yfir 80% ásetts fjár á mestu áhættusvæðunum ólíkleg til að veikjast af riðu eftir fimm ár og þar af leiðandi hverfandi líkur á niðurskurði,“ er haft eftir Svandísi sem hefur kynnt tillöguna í ríkisstjórn. 

Þá er haft eftir henni að stefnt sé að því að greina megi árlega 15 til 40 þúsund fjár „og með þessum aðgerðum munu líkur á stórfelldum niðurskurði minnka hratt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert