Fleiri félög kjósa um verkföll

Sonja Ýr Þorbergsdóttir segir atkvæðagreiðslur hafa farið vel af stað …
Sonja Ýr Þorbergsdóttir segir atkvæðagreiðslur hafa farið vel af stað og það sé hugur í fólki.

Atkvæðagreiðslur um verkfallsaðgerðir BSRB félaga vegna kjaradeilu félaganna við Samband íslenskra sveitarfélaga hefjast á hádegi í dag í Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Ölfus, Árborg, Hveragerði og Vestmannaeyjum. 

Kosningu lýkur á hádegi á fimmtudag 4. maí og verða niðurstöður kynntar í kjölfarið.

Atkvæðagreiðslur um verkfallsaðgerðir standa þegar yfir í Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi en þeim lýkur á hádegi á morgun, laugardag. Niðurstöður verða kynntar stuttu síðar.

„Atkvæðagreiðslur fóru vel af stað í Kópavogi, Mosfellsbæ, Garðabæ og Seltjarnarnesi og augljóst að það er mikill hugur í okkar fólki. Ég hvet allt kosningabært félagsfólk til að taka þátt í kosningunni og sýna samstöðu í verki,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, um atkvæðagreiðslurnar í tilkynningu frá félaginu.

Verði verkfallsboðun samþykkt mun starfsfólk leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila, mötuneyta og hafna leggja niður störf í 10 sveitarfélögum, en misjafnt er eftir sveitarfélögum hvaða stofnanir eru undir.

Verði verkföll samþykkt munu um 1.500 félagsmenn í tíu aðildarfélögum BSRB í leik- og grunnskólum, frístundamiðstöðvum, skólaeldhúsum og höfnum koma til með að leggja niður störf. 

Verði verkfallsboðanir samþykktar mun starfsfólk Kópavogs, Mosfellsbæjar, Garðabæjar og Seltjarnarness hefja verkföll 15. og 16. maí. Starfsfólk Hafnafjarðar, Ölfus, Reykjanesbæjar, Árborgar, Hveragerðis og Vestmanneyja mun bætast í hópinn í vikunni á eftir og eru verkföll fyrirhuguð 22., 23., 24. 25. og 26. maí, 5,. 6., 7., 8., og 9. júní. Náist ekki að semja fyrir þann tíma er gert ráð fyrir stigmagnandi aðgerðum að því er fram kemur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka