Hagræða í rekstri framhaldsskóla

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, skipaði í síðustu viku stýrihóp um eflingu framhaldsskóla. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. 

Hópurinn hefur verið skipaður til þess að takast á við þær áskoranir sem framhaldsskólarnir standa frammi fyrir á komandi árum. Þarfir nemenda verða hafðar í fyrirrúmi með áherslu á aukna faglega samlegð, breidd og hagkvæmni. 

Vonir standa til þess að með vinnunni verði hægt að tryggja fjölbreytni í námsframboði og gæði náms. Afrakstur aukinnar hagræðingar og samlegðar í eflingu skólaþjónustu, verði nýttur í betri námsgögn og meiri stuðning við nemendur sem standa höllum fæti og nemendur með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn.

Meta kosti og galla

Lögð verður fram skýrsla um kosti og galla samstarfs milli skóla, um fagleg og rekstrarleg málefni eða sameiningu skólanna, í lok maí.

Nú þegar hafa skólameistarar nokkurra skóla hafið viðræður um aukið samstarf. Má þar nefna Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri, Kvennaskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Sund, Flensborgarskólann í Hafnarfirði og Tækniskólann auk Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Keilis. 

Þær viðræður sem hafnar eru, auk skýrslunnar sem skilað verður í maí, eiga ekki að hafa áhrif á starfsemi skólanna næstkomandi skólaár.

Með vinnu hópsins verður vonandi hægt að fylgja eftir framsækinni menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 ásamt því að ná fram markmiðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um eflingu verk- og starfsnáms.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert