Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitti ökumanni eftirför í Hafnarfirði síðdegis í gær eftir að ökumaðurinn neitaði að hlýðnast fyrirmælum lögreglu um að stöðva akstur.
Fram kemur í dagbók lögreglu, að lögreglan hafði orðið vör við stolna bifreið sem var ekið um Vallarhverfið í Hafnarfirði um kl. 17 í gær.
„Þegar ökumanni voru gefin merki um að stöðva akstur, óhlýðnaðist hann þeim fyrirmælum og jók hraðann. Þannig hófst eftirför á eftir bifreiðinni sem lauk þegar henni var ekið fram af bifreiðastæði, um 1-2 metra fall. Ökumaður og farþegi hlupu þá í burtu, en fundust báðir og voru handteknir í kjölfarið,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Þá segir að lögreglan hafi notið tilkynningar athuguls borgara sem benti á felustað annars mannsins.
Þeir voru vistaðir í fangageymslu, en ökumaðurinn er að auki grunaður um ýmis umferðarlagabrot m.a. akstur undir áhrifum vímuefna og akstur án ökuréttinda.