„Við erum að hýsa 1.900 manns vítt og breitt um landið, sem eru að bíða eftir úrskurði frá Útlendingastofnun,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, og segir álagið á kerfinu gífurlega mikið. Mismunandi sé hversu langan tíma hver umsókn taki, en umsóknir frá Úkraínu séu séu nú þær einu sem eru á sérstöku ákvæði og þær fái því hraðameðferð í kerfinu og séu oftast komnar með samþykki eftir 1-2 sólarhringa.
„Við höfum verið með herbergi á Mariott-hótelinu í Keflavík til að nýta sem einnar nætur stopp fyrir hælisleitendur ef við höfum verið í vandræðum,“ segir Unnur. „Umsækjendur um alþjóðlega vernd koma til landsins, geta lagt sig á hótelinu og svo förum við með fólkið áfram og við höfum haft þetta úrræði núna í talsverðan tíma.“ Hún segir að þetta sé ekki stór hluti hótelsins, heldur aðeins nokkur herbergi sem eru til reiðu fyrir stofnunina og fyrst og fremst notað ef fólk kemur til landsins mjög seint eða jafnvel um miðja nótt.
Eftir þessa fyrstu nótt er farið með fólk í Domus Medica í innskráningu og þaðan í húsnæði.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.