„Í raun er verið að leggja niður báða skóla“

Aðalbygging Kvennaskólans í Reykjavík.
Aðalbygging Kvennaskólans í Reykjavík. Ljósmynd/Kvennaskólinn í Reykjavík

Kennarafélag Kvennaskólans í Reykjavík hafnar öllum hugmyndum um að leggja skólann niður í núverandi mynd. Þá mótmælir félagið þeirri „aðför að farsæld barna sem felst í þessum áformum.“ 

Þetta kemur fram í ályktun félagsins frá aðalfundi sem send var á fjölmiðla. Eins og greint var frá í gær er til skoðunar að sameina Kvennaskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Sund.

„Kvennaskólinn í Reykjavík var stofnaður 1874 og verður því 150 ára á næsta ári. Saga hans er samofin íslenskri kvenna- og skólasögu og hefur verið mikilvægur hluti réttindabaráttu kvenna frá stofnun. Sérstaða hans er að mörgu leyti mikil, ekki bara hvað varðar sögu hans, heldur líka sem menntastofnun og framhaldsskóli og sjálfsmynd og skólabragur Kvennaskólans byggist að miklu leyti á staðsetningu hans og húsakosti,“ segir í ályktuninni.

Endurskoða þurfi frá grunni námsskipulag 

Þá kemur fram að brotthvarf úr skólanum hafi verið mjög lágt og hann hafi skilað frá sér öflugum stúdentum. Mikil ánægja hafi verið með starfsemi skólans og stuðning við nemendur. Það staðfestist m.a. með miklum fjölda umsókna um skólavist ár hvert.

„Ef sameina á tvo skóla þarf að endurskoða frá grunni námsskipulag, námsframboð, námsbrautir, áfangalýsingar og fleira. Því er ljóst að í raun er verið að leggja niður báða skóla og stofna nýjan sem verður einhvers konar blanda gömlu skólanna tveggja. Allar fullyrðingar um annað eru haldlausar. Með því að leggja niður Kvennaskólann í Reykjavík væri því bæði verið að slá striki yfir merkan kafla í sögu þjóðarinnar og ógna því góða starfi sem fram fer innan veggja hans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert