Segir Reykjavík fara vel með fé

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vill ekki viðurkenna að óvarlega hafi verið farið í rekstri Reykjavíkurborgar. „Ég held að almennt séu sveitarfélög, ekki bara Reykjavík, að fara vel með fé.“

Þetta er meðal þess, sem fram kemur í ýtarlegu Dagmálaviðtali, sem birt verður á morgun. Þar er rætt við borgarstjóra og Hildi Björnsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn, en fjárhagskröggur borgarinnar eru þar í brennidepli.

„Þau eru oftast að hagræða og spara til þess að geta gert betur og meira í skólum eða velferð eða menningu. Ef þú berð saman sveitarfélögin, þá er ekkert sveitarfélag sem kemst nálægt því að verja fjármunum til heimilislausra eða viðkvæmra málaflokka í velferð eins og Reykjavíkurborg,“ segir Dagur.

Ársreikningur Reykjavíkurborgar var birtur á fimmtudag, en þar birtist gríðarlegur hallarekstur borgarinnar, margfaldur á við það sem gert var ráð fyrir í áætlunum meirihlutans í haust. Dagmálaviðtalið, sem blaðamennirnir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson tóku, verður birt í fyrramálið, á laugardag, kl. 6.00.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert