Skilorð og tæpar 50 milljónir í sekt

Landsréttur þyngdi dóm Héraðsdóm Reykjaness umtalsvert.
Landsréttur þyngdi dóm Héraðsdóm Reykjaness umtalsvert. mbl.is/Kristinn Magnússon

Magnús Scheving Thorsteinsson hlaut í dag sex mánaða dóm í Landsrétti, skilorðsbundinn til tveggja ára, auk þess sem honum var gert að greiða ríkissjóði 47.775.000 krónur í sekt ellegar sæta fangelsi í 360 daga.

Var Magnúsi gefið að sök meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2017 og 2018 fyrir tekjuárin 2016 og 2017. Var hann ákærður fyrir að hafa þar látið hjá líða að telja fram tekjur að fjárhæð 57.700.000 krónur vegna greiðslna frá A ehf. en þar var hann sjálfur eini stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og eigandi alls hlutafjár.

Krafðist frávísunar á grundvelli ne bis in idem-reglunnar

Fyrir Héraðsdómi Reykjaness hafði Magnúsi verið dæmd sekt að fjárhæð 16.100.000 krónur 23. mars í fyrra svo Landsréttur þyngir refsinguna umtalsvert með skilorðsdómi og mun hærri sektarfjárhæð.

Krafðist hann frávísunar á þeim grundvelli að saksókn á hendur honum bryti gegn því ákvæði sjöunda samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar endurtekna málsmeðferð vegna sama brots, það er reglunni ne bis in idem.

Hafnaði Landsréttur þeirri kröfu Magnúsar á þeirri forsendu að hann teldist ekki áður hafa verið sýknaður af brotinu og væri því ekki um endurtekna málsmeðferð að ræða.

Sannað taldist í málinu að vilji ákærða hefði staðið til þess að skila téðum framtölum efnislega röngum og hefði hann með háttsemi sinni komið sér undan greiðslu skatts og engu breytti þá um refsinæmi háttseminnar þótt hann hefði greitt skatt af þeim tekjum, er vantaldar voru, eftir að skattrannsóknarstjóri hafði hafið rannsókn sína, „enda brotið þá löngu fullframið. Eftir stendur hver skuli teljast fjárhæð hinna vantöldu  tekna, hvort af þeim hafi borið að greiða tekjuskatt og útsvar eða fjármagnstekjuskatt og hvort brot ákærða nái því að teljast meiri háttar í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga,“ segir í forsendum Landsréttar.

Misræmi metið ákærða í hag

Varðandi fjárhæð þeirra tekna, sem vantaldar voru, vísaði rétturinn til þess að ljóst væri að fjárhæðum í ákæru og úrskurði ríkisskattstjóra bæri ekki fyllilega saman. Hefði Magnús kosið að una úrskurðinum og staðið skil á greiðslu samkvæmt honum. Taldi dómurinn rétt að meta þessar aðstæður og misræmið honum í hag þannig að ósannað teldist að vantaldar tekjur hans hefðu farið umfram það sem ríkisskattstjóri lagði til grundvallar.

Vísaði Landsréttur til þess að ekki færi milli mála að fjárhæðir vantaldra tekna og þess tekjuskatts og útsvars sem Magnús kom sér undan teldust verulegar í ljósi dómaframkvæmdar og brotið því réttilega heimfært undir 1. málsgrein 262. greinar almennra hegningarlaga sem fjallar um skattalagabrot af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

„Ákærða  hefur ekki verið gerð refsing áður, auk þess sem hann  hefur  greitt  að  fullu endurákvörðuð gjöld  kattyfirvalda. Með hliðsjón af þessu, atvikum málsins og dómaframkvæmd þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi sem verður bundin skilorði eins og í dómsorði greinir. Samhliða verður hann dæmdur til fésektar samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 en rétt þykir að miða hana við lögbundið lágmark, það er tvöfalda skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn, eða samtals 47.775.000 krónur. Um vararefsingu fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir,“ segir í niðurlagi dómsorðs Landsréttar.

Dómur Landsréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert