„Stóra málið núna er að ná samstöðu“

Kristján Þórður Snæbjarnarson fráfarandi forseti ASÍ og nýr þriðji varaforseti …
Kristján Þórður Snæbjarnarson fráfarandi forseti ASÍ og nýr þriðji varaforseti sambandsins. mbl.is/Árni Sæberg

Kristján Þórður Snæbjarnarson, fráfarandi forseti ASÍ kveðst spenntur að skipta í nýjan gír, en hann var í dag sjálfkjörinn þriðji varaforseti sambandsins. 

„Þetta er búinn að vera rosalega skemmtilegur tími síðastliðna átta mánuði, en þeir hafa verið krefjandi. Það er auðvitað það sem maður býr að núna að hafa fengið þetta hlutverk í þennan tíma og þann mikla heiður sem því fylgir.“

Skiptir máli að það séu ekki bara karlar í þessu. 

Hann kveðst spenntur fyrir starfinu fram undan með nýrri stjórn. Nýr forseti er Finnbjörn A. Hermannson, en embætti fyrsta varaforseti gegnir Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR en Hjör­dís Þóra Sig­urþórs­dótt­ir, formaður AFL starfs­greina­fé­lags Rafiðnaðarsam­bands Íslands er annar varaforseti sambandsins.

„Það kemur náttúrulega framboð frá Hjördísi sem að mér finnst alveg rosalega mikilvægt fyrir okkur að fá öfluga konu úr verkalýðshreyfingunni sem er að reka stórt félag,“ segir Kristján.  

Það mun skipta miklu máli fyrir forsetateymið að hafa hana inni í þeim hópi, ásamt okkur hinum köllunum. Ásýndin skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli að það séu ekki bara kallar í þessu.“

Þurfa beita öllum sínum kröftum

Hann kveðst einnig mjög ánægður með Finnbjörn sem nýjan forseta sambandsins og Ragnar Þór sem fyrsta varaforseta. 

„Hann er reynslumaður, þekkir vel til verkalýðshreyfingarinnar. Við höfum unnið náið saman á undanförnum árum og það samstarf hefur verið mjög gott og ég geri ráð fyrir að það haldi áfram. Jafnframt er gott að hafa Ragnar Þór, formann VR inni í þessu teymi okkar og hann hefur auðvitað verið í því starfi með okkur.“ segir Kristján.

„Stóra málið núna er að ná samstöðu um þessar stóru línur fram á við og við munum bara þurfa að beita öllum okkar kröftum í það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert