Þórdís til Úkraínu

Ljósmynd/Stjórnarráðið

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja heimsóttu í dag úkraínsku hafnarborgina Ódessu til að árétta stuðning sinn við stjórnvöld í landinu og undirstrika mikilvægi þess að kornútflutningur frá borginni gangi hindranalaust fyrir sig. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fór þangað ásamt öðrum utanríkisráðherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í morgun. Borgin er mikilvægasta höfn landsins, ekki síst hvað varðar úflutning á hveiti, kornmeti og áburði, og hefur af þeim sökum orðið fyrir hörðum loftárásum Rússa allt frá upphafi innrásarinnar. Frá þessu greinir í sömu tilkynningu.

Greinir þar enn fremur frá því að markmið heimsóknarinnar hafi verið að sýna úkraínskum stjórnvöldum eindreginn stuðning í stríðinu. Var höfnin í Ódessu einn af fyrstu viðkomustöðunum þar sem Dmytró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, kynnti mikilvægi hafnarinnar.

Greindi ráðherra gestunum jafnframt frá framkvæmd samkomulags um útflutning á korni sem komið var á í fyrra með milligöngu Tyrklands og Sameinuðu þjóðanna.

Ráðherrarnir áttu svo vinnuhádegisverð með ráðherranum þar sem hann ræddi meðal annars væntingar Úkraínu um inngöngu í Atlantshafsbandalagið og áformaða gagnsókn gegn rússneska herliðinu. Þar væri aðalmarkmiðið fullnaðarsigur Úkraínu, hvort sem eina eða fleiri gagnsóknir þyrfti til. Ráðherrarnir tóku auk þess þátt í viðburði um uppbyggingu í þessum hluta landins, Odesa Region Recovery Forum, þar sem Þórdís Kolbrún flutti stutt innlegg, héldu jafnframt blaðamannafund og skoðuðu gamla miðbæjarkjarnann í Ódessu sem skráður var á heimsminjaskrá UNESCO í byrjun þessa árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert