Veitingamenn eru áhyggjufullir

Erfitt verður að koma aðföngum til margra veitingastaða.
Erfitt verður að koma aðföngum til margra veitingastaða. mbl.is/Óttar

Veitingamenn í miðborg Reykjavíkur ræða hvernig hægt er að bregðast við aðgangstakmörkunum vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fer fram í Hörpu 16. og 17. maí. „Við erum í vandræðum,“ segir Aðalgeir Ásvaldsson, formaður Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði.

Hann bendir á að þegar miðborgin opnist á ný taki uppstigningardagur við sem er almennur frídagur. „Það er erfitt fyrir fyrirtæki innan minna raða að birgja sig upp fyrir svona langan tíma.“

Aðalgeir segir að búast megi við miklum viðskiptum sem sé jákvætt. „Við þurfum að finna leiðir til að fyrirtækin okkar geti fengið vörur.“ Formaðurinn segir að verið sé að reyna að finna lausn með skipuleggjendum fundarins. „Mér skilst að það verði engar undantekningar gerðar varðandi bílaumferð eins og hefur verið gert í kringum stórtónleika. Þetta kemur sér afar illa. Við viljum ekki sjá að menn þurfi að ganga langt með þunga kúta og viðkvæm hráefni.

Við höfum fjögurra tíma glugga um morguninn á mánudeginum 15. maí til að þjónusta allt svæðið áður en það lokast klukkan tólf á hádegi,“ segir Aðalgeir og bætir við að þessi skammi tími til að koma vörum til veitingastaða komi beint í kjölfar Eurovisionhelgar þegar landsmenn geri vel við sig og eflaust verði mikið að gera.

Hann segir líka umhugsunarefni hvernig sorphirðu verði háttað. „Ég veit ekki hvernig menn hafa hugsað út í það. Við viljum finna lausnir. Við höfum áhyggjur en þetta er ekki óyfirstíganlegt.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert