Vill setja 170 milljónir í aðgerðir

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag tillögu Willum Þórs …
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag tillögu Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um að veita 170 milljónir króna í aðgerðir til að sporna við skaða af völdum ópíóíðafíknar. Þróuð verður flýtimóttaka til að sinna meðferð einstaklinga í bráðum vanda og stuðlað að greiðara aðgengi að gagnreyndri lyfjameðferð. Samsett mynd

Heilbrigðisráðherra lagði fram tillögur á ríkisstjórnarfundi í dag að veita 170 milljónum króna í aðgerðir til að sporna við skaða af völdum ópíóíðafíknar. Tillögurnar verða ræddar í næstu viku í ráðherranefnd um samræmingu mála ásamt fleiri aðgerðum á þessu sviði. 

Þróuð verður flýtimóttaka til að sinna meðferð einstaklinga í bráðum vanda og stuðlað að greiðara aðgengi að gagnreyndri lyfjameðferð.

Úrræði frjálsra félagasamtaka verða efld og aðgengi að neyðarlyfinu Naloxon vegna ópíóíðaofskömmtunar bætt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu. 

Uppfært kl: 16:13 - Í upphaflegri frétt frá Stjórnarráðinu sagði að ríkisstjórnin hefði samþykkt tillögu heilbrigðisráðherra. Rétt er að hann lagði aðeins fram tillögurnar og hafa þær ekki verið samþykktar. 

Í tilkynningunni segir að misnotkun ópíóðalyfja sé vaxandi vandamál á heimsvísu. 

Ísland er þar ekki undanskilið og eru vísbendingar um aukinn ópíóðavanda hjá ungu fólki. Mikilvægt er að grípa strax inn í þessa þróun. Mikilvægar aðgerðir til að bregðast við þessu fela í sér aukið aðgengi að fjölbreyttri, gagnreyndri meðferð við vímuefnavanda og skaðaminnkandi úrræðum. Þar með taliðgagnreyndri viðhaldsmeðferð við ópíóðafíkn. Einnig þurfa aðgerðir gegn vímuefnavanda að fela í sér aukna fræðslu, forvarnir og heilsueflingu.

Ávanabinding ópíóíða er mikil og þekkt er að einstaklingar þróa hratt með sér þol og fíkn í lyfið sem aftur leiðir til þess að notaðir eru sífellt stærri og lífshættulegri skammtar. Öndunarbæling ópíóða er hættulegasta aukaverkunin og með notkun stórra skammta eykst áhætta á ofskömmtun og öndunarstoppi og eru þeir einstaklingar sem reykja eða sprauta ópíóíðum í æð í hvað mestri áhættu þessu tengdu.

Þær aðgerðir sem ráðist verður í:

  • Þróuð verður flýtimóttaka/viðbragðsþjónusta sem samstarfsverkefni SÁÁ, Landspítala og heilsugæslu þar sem einstaklingum í bráðum vanda er tryggt aðgengi að gagnreyndri heilbrigðisþjónustu á borð við fráhvarfsmeðferð, vímuefnameðferð eða viðhaldsmeðferð sem mætir þeirra þörfum. Áætlaður kostnaður er 50 m.kr.
  • Tryggt verði greitt aðgengi notenda að gagnreyndri lyfjameðferð við ópíóðafíkn þar sem m.a. er notuð lyf eins og buprenorphin, metadon og í sumum tilfellum önnur ópíóíðalyf. Áætlaður kostnaður 80 m.kr.
  • Úrræði á vegum frjálsra félagasamtaka efld, s.s. Foreldrahúss, sem sýnt hafa fram á árangur á sviði viðbragðsforvarna og snemmtækra inngripa fyrir ungmenni sem sýna forstigseinkenni vímuefnavanda og aðstandenda þeirra, með það að markmiði að koma í veg fyrir þróun frekari vanda eða fíknisjúkdóm. Áætlaður kostnaður 30 m.kr.
  • Tryggja verði að neyðarlyfið Naloxon í nefúðaformi sem notað gegn ópíóðaofskömmtun sé aðgengilegt fólki á landsvísu án endurgjalds, bæði í gegnum skaðaminnkunarúrræði og á heilsugæslum landsins. Áætlaður kostnaður 10 m.kr.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert