„Ég vissi að okkur hefði fjölgað, en ég vissi ekki að þetta væri að gerast svona hratt,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í samtali við mbl.is en á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun varð Ásgeiri brugðið að heyra að landsmenn væru nú fleiri en 390 þúsund.
Ásgeir bendir á að hagvöxtur sé mjög ör um þessar mundir og að hann sé að miklu leyti drifinn áfram af innflutningi á fólki. „Það síðan hefur veruleg áhrif á ansi margt hjá okkur.“
Spurður hvort að upplýsingarnar um íbúafjölda þýði breytingar á peningastefnu Seðlabankans segir Ásgeir svo ekki vera.
Orð Ásgeirs komu Guðrún Hafsteinsdóttur, formanni nefndarinnar, ekki sérstaklega á óvart.
Guðrún segir að viðbrögð Ásgeirs lýsi stöðunni ágætlega um hvað það sé „mikill og góður gangur í kerfinu okkar“.
„Það er búið að koma gríðarlegur fjöldi af fólki til landsins og ferðaþjónustufyrirtækin að gíra sig upp fyrir sumarið. Þá eru margir hælisleitendur að koma líka. Þannig að við erum að fjölga okkur.“
Guðrún minnist á að um áramótin hafi Íslendingar verið um 387 þúsund en nú orðnir fleiri en 390 þúsund talsins.
Spurð hvort að henni finnist ekkert athugavert við það að seðlabankastjóri sé ekki upplýstur um fjölda landsmanna segist Guðrún ekki ætla að fella áfellisdóm um það.
„Ásgeir er nú oft húmoristi og tekur oft svona skemmtilega til orða.“
Ásgeir nefnir að velta fasteignamarkaðarins hafi farið minnkandi síðustu mánuði en svo hafi veltan allt í einu snúið við. Þá sé erfitt að halda aftur af vaxtahækkunum ef kaupendum og leigjendum á markaðinum fjölgar svo hratt.
Hvaða þýðingu hefur það fyrir hagkerfið ef fjölgun landsmanna heldur svona áfram?
„Það er í sjálfu sér gott að fá innflutning á fólki til þess að mæta þeirri vinnumarkseftirspurn sem er til staðar. Annars myndum við sjá miklu meiri þrýsting á vinnumarkaði,“ segir Ásgeir en nefnir þó að verðbólgan sé merki um að við ráðum ekki við þennan mikla hagvöxt til lengri tíma að ákveðnu leyti.
„Sem þýðir þá að við þurfum að stíga á bremsurnar.“
Ásgeir segir að um ótrúlegan kraft sé að ræða í íslenska hagkerfinu eins og staðan er núna.
Næsti fundur peningastefnunefndar er í lok maí. Spurður hvort búast megi við enn meiri vaxtahækkunum segist Ásgeir ekki geta sagt til um það. Hann minnist þó á að það taki tíma fyrir stýrivexti að hafa áhrif.
„Við erum núna að undirbúa nýja spá um peningamál. Það verður kynnt fyrir peningastefnunefnd og hún fer yfir málið. Ég í sjálfu sér hef bara eitt atkvæði þar, en þetta eru allavega ekki góðar fréttir.“
Ásgeir segir að lokum að staðan sé þó ekki alslæm og nefnir í því samhengi góðar horfur í ferðaþjónustunni fyrir sumarið.