Í dag hófst hin árlega vorsöfnun Barnaheilla til styrktar Verndurum barna, forvarnaverkefnis gegn kynferðisofbeldi á börnum. Þetta er í fjórtánda sinn sem fjáröflunin fer fram en hefð hefur verið fyrir því að selja ljós í formi lyklakippu. Í ár eru þær hannaðar og handgerðar af listafólki í Síerra Leóne. 18 einstaklingar komu að gerð lyklakippunnar og tók framleiðslan um 4 mánuði.
„Öll fengu þau laun sem samsvaraði árslaunum fyrir vinnu sína,“ er haft eftir Kolbrúnu Pálsdóttur, kynningastjóra Barnaheilla.
Tvíburarnir Snædís María Jörundsdóttir og Sigurbergur Áki Jörundsson, sem bæði voru nýlega valin í U19 landslið Íslands í fótbolta, keyptu fyrstu lyklakippurnar í söfnuninni en setning söfnunarinnar fór fram í höfuðstöðvum KSÍ fyrr í dag og flutti Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, nokkur orð í tilefni dagsins. Þá sýndu danshópar frá Plié Listdansskóla atriði en skólinn eru virkur söluaðili í söfnun Barnaheilla.
Vorsöfnunin stendur yfir dagana 28. apríl - 7. maí og er hægt að kaupa lyklakippurnar um land allt hjá sölufólki og inni á vefsíðu Barnaheilla. Lyklakippan kostar 3.000 krónur og rennur allur ágóði sölunnar til Verndara barna, forvarnaverkefnis Barnaheilla sem snýr að námskeiðum og fræðslu um hvernig koma megi í veg fyrir kynferðisofbeldi, þekkja vísbendingar um að ofbeldi hafi átt sér stað eða að möguleiki sé á því að verið sé að undirbúa jarðveg til að brjóta á barni. Á síðasta ári fengu rúmlega þrjú þúsund einstaklingar fræðslu Verndara barna.