Rafmagn fór af útvarpshúsinu í Efstaleiti fyrr í vikunni með þeim afleiðingum að útsendingar duttu út um tíma. Útvarpsstjórinn Stefán Eiríksson segir málið vera alvarlegt, ekki síst í ljósi öryggishlutverksins sem RÚV sinnir samkvæmt þjónustusamningi við menntamálaráðuneytið.
„Rafmagnið fór einfaldlega af öllu húsinu. Stór díselrafstöð fer í gang hjá okkur í hvert skipti sem eitthvert hökt verður á rafmagni inn í húsið til okkar og tekur þá við sem aflgjafi fyrir alla starfsemina í Efstaleiti til að tryggja útsendingar hjá okkur. Verið var að skipta um aflgjafa sem grípur inn í fyrstu hálfu mínútuna eða mínútuna eftir að slíkt gerist. Þess vegna var keyrt á díselrafstöðinni en hún stöðvaðist aðfaranótt þriðjudagsins með þeim afleiðingum að rafmagnið fór af húsinu og allar útsendingar duttu út,“ segir Stefán en útsendingar RÚV lágu niðri í rúman klukkutíma.
„Hér eru öryggisverðir starfandi sem komu upplýsingum áleiðis til allra hlutaðeigandi. Fljótt og vel var kominn hingað stór hópur sem fór í fyrstu viðbrögð til að koma rafmagni á og útsendingunum í gang aftur. Tók það um það bil klukkutíma en við erum að fara yfir og greina hvað hefði mátt betur fara hjá okkur. Þetta er alvarlegur atburður eins og gefur að skilja og við viljum tryggja að slíkt gerist ekki aftur.“
Útsendingar duttu út klukkan rúmlega 4 um nóttina og fóru aftur í gang á sjötta tímanum.
Nána er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.