Bílum í umferð fjölgar jafnt og þétt

Nýir bílar biðu nýrra eigenda á bílastæðinu í Þorlákshöfn í …
Nýir bílar biðu nýrra eigenda á bílastæðinu í Þorlákshöfn í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fólksbílum á skrá og í umferð fjölgaði um tæplega hundrað þúsund frá árslokum 2000 og fram í byrjun apríl í ár. Bílunum hefur jafnan fjölgað í hagvexti en að sama skapi fækkaði þeim óvissuárið 2001, hrunárið 2008, samdráttarárin 2009 og 2010 og farsóttarárið 2020.

Þetta má lesa úr tölum um ökutækjaskráningar sem Samgöngustofa tók saman að beiðni Morgunblaðsins. Tölurnar eru hér endurgerðar á grafi og settar í samhengi við hagvaxtartölur og hagvaxtarspá Lansdbankans.

Skal tekið fram að hér er um að ræða bíla á skrá og í umferð en mun fleiri bílar eru í landinu.

Tæplega 141.300 fólksbílar voru á skrá og í umferð í árslok 2000. Fólksbílum á skrá og í umferð fækkaði milli ára 2000 og 2001 en síðara árið var óvissa í hagkerfinu og væntingar döpruðust. Væntingavísitala Gallup féll skarpt á síðari hluta ársins 2001: Netbólan hafði sprungið og árið 2002 mældist aðeins 0,6% hagvöxtur.

Fjölgaði jafnt og þétt

Árin 2002 til 2007 fjölgaði bílum jafnt og þétt og voru þeir tæplega 182 þúsund í árslok 2007, eða um 40 þúsund fleiri en í árslok 2000. Síðan skipti markaðurinn um gír og árið 2008 fækkaði bílunum í tæplega 179 þúsund, enda þótt hagvöxtur hafi þá mælst í hagkerfinu. Skýringin er efnahagshrunið í október 2008 en ein afleiðing þess var að margir gátu ekki lengur staðið í skilum af bílalánum.

Fólksbílum á skrá og í umferð fækkaði svo næstu tvö árin og í árslok 2010 voru tæplega 171.500 fólksbílar á skrá og í umferð, eða færri en í árslok 2006. Svo fór bílunum að fjölga ár frá ári og í árslok 2019 voru um 224 þúsund fólksbílar á skrá og í umferð á Íslandi. Vorið 2020 skall kórónuveirufaraldurinn með fullum þunga á íslenskt samfélag. Mikill samdráttur varð í hagkerfinu og fækkaði fólksbílum á skrá og í umferð í rúmlega 219.600.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert