Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti útkalli á skemmtistað nokkurn í miðbæ Reykjavíkur í nótt þar sem grunur lék á að dyravörður hefði beitt gest ofbeldi. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en ekki segir hvernig málum lykti eftir að lögregla var kölluð til.
Lögregla sinnti alls 76 útköllum í nótt.
Sjö hið minnsta voru stöðvaðir vegna gruns um aksturs undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Þá var tilkynnt um að rúða hefði verið brotin á veitingahúsi í miðborginni.
Í Garðabæ var óskað eftir aðstöð lögreglu vegna innbrots í grunnskóla. Þar var einn handtekinn á vettvangi og fannst talsvert magn af ætluðu amfetamíni á manninum. Var hann vistaður í fangageymslu.
Í Kópavogi var í tvígang óskað eftir aðstoð lögreglu vegna líkamsárásar. Í öðru tilvikinu hafði maður slegið annan í höfðið með glasi. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu.