Eitt prósent þjóðar með iktsýki

Sædís Sævarsdóttir læknir og vísindamaður hefur stundað mikilvægar rannsóknir á …
Sædís Sævarsdóttir læknir og vísindamaður hefur stundað mikilvægar rannsóknir á sviði gigtarlækninga. mbl.is/Hallur Már

Læknirinn Sædís Sævarsdóttir situr sannarlega ekki auðum höndum en auk þess að sinna sjúklingum sínum á Landspítalanum er hún prófessor og varadeildarforseti læknardeildar Háskóla Íslands og vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Hún hefur leiðbeint níu doktorsnemum og birt vísindagreinar í virtum vísindaritum innan gigtarlækninga og erfðafræði, en hún birti nýlega niðurstöður stærstu erfðarannsóknar sem gerð hefur verið á iktsýki annars vegar og sjálfsónæmi í skjaldkirtli hins vegar. Rannsóknirnar vann Sædís ásamt teymi vísindafólks hjá ÍE.

Í vikunni hlaut hún verðlaun úr verðlaunasjóði læknanna Árna Kristinssonar og Þórðar Harðarsonar en þeir veita framúrskarandi vísindamanni verðlaun annað hvert ár, í ár að upphæð sjö milljónir króna. Sædís mætti í Dagmálamyndver Árvakurs í vikunni til að spjalla um vinnu sína og framfarir á sviði gigtlækninga.

Fólk gat orðið örkumla áður fyrr

Talinu víkur að gigt, eða iktsýki eins og það form sem er algengast nefnist á góðri íslensku.

„Algengasta form liðagigtar er það sem við köllum iktsýki, sem er bólgusjúkdómur sem leggst sérstaklega á smáliði í höndum og fótum og getur líka komið í stóru liðina. Sjúkdómurinn kemur oft hægt og bítandi og oft finnur fólk fyrst fyrir stirðleika. Sem betur fer eru komnar betri greiningaraðferðir til að greina fólk fyrr í dag,“ segir hún og segir 1% þjóðar vera með iktsýki, og fólk geti veikst á öllum aldri.

„Á árum áður, þegar nútímameðferðarúrræði voru ekki fyrir hendi, varð fólk oft óvinnufært og gat í sumum tilvikum orðið örkumla. Þá var þessi sjúkdómur mikil byrði bæði á samfélaginu og einstaklingnum, en í dag er hann ósýnilegri því flestir fá árangursríka meðferð og geta snúið aftur til vinnu og daglegs lífs,“ segir Sædís og segir markmiðið að ná sjúkdómshléi sem allra fyrst hjá sjúklingum.

„Sem betur fer ná flestir því markmiði, en það getur tekið tíma að finna hvaða lyf duga til að vinna á bólgunni hjá hverjum sjúklingi,“ segir hún og nefnir að þótt hægt sé að halda sjúkdómnum í skefjum sé hann enn talinn ólæknandi en sífellt sé verið að rannsaka og leita að lækningu.

„Ekki eru öll kurl komin til grafar.“

Ítarlegt viðtal er við Sædísi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina og í Dagmálsþætti sem fer í loftið 1. maí. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert