Í minningu mömmu

Haraldur Þorleifsson hefur nýverið opnað veitingastað sinn Önnu Jónu í …
Haraldur Þorleifsson hefur nýverið opnað veitingastað sinn Önnu Jónu í Tryggvagötu, sem hann nefndi í höfuðið á móður sinni heitinni. mbl.is/Ásdís

Nýi veitingastaðurinn Anna Jóna tekur hlýlega á móti blaðamanni en þar innandyra ríkir andblær liðinna tíma. Stíllinn er afar fágaður og litapallettan, sem virðist vera sótt aftur til miðju síðustu aldar, gefur staðnum skemmtilegan blæ. Fölbleiki liturinn setur svip á staðinn ásamt vönduðum viðarhúsgögnum, bogadregnum línum, básum með mjúku áklæði og lifandi blómum. Nostrað hefur verið við hvern krók og kima og hugsað fyrir öllu, alveg niður í smæstu smáatriði, eins og sjá má í sérlega fallegum hnífapörum, smart glösum og leirtaui og tauservíettum af fínustu gerð, að sjálfsögðu í fallega fölbleika litnum.

Á barnum verður hægt að tylla sér og fá sér …
Á barnum verður hægt að tylla sér og fá sér góðan kokteil.

Eigandi Önnu Jónu er Íslendingum að góðu kunnur; hinn geðþekki Haraldur Þorleifsson, áður starfsmaður Twitter sem nú „rampar upp“ borgina svo fatlaðir komist betur leiðar sinnar. Haraldur er mættur og býður blaðamanni upp á kaffi sem fær tíu í einkunn.

Mamma var hlý og góð

Staðurinn var opnaður nýlega og fólk er farið að streyma að til að prófa hann. Nafnið á staðnum er Haraldi afar kært.

„Staðurinn heitir Anna Jóna eftir mömmu minni sem ég missti ellefu ára. Við áttum heima hérna á móti, á Norðurstíg. Mig hefur lengi langað til að opna stað til að minnast hennar og langaði að prófa að eiga og reka veitingastað og kaffihús. Þegar við fluttum heim var þetta húsnæði til sölu, en við búum hér beint á móti,“ segir Haraldur og bendir út um gluggann á svarta byggingu hinum megin götunnar.

Staðurinn er smart með básum og viðarhúsgögnum. Haraldur sótti litina …
Staðurinn er smart með básum og viðarhúsgögnum. Haraldur sótti litina til málverkar mömmu sinnar.

„Þá small allt saman. Ég hugsaði mikið um það hvort ég ætti að tala við fólk sem þekkti mömmu til að fá betri heildarmynd af henni en ákvað svo að gera það ekki og nota frekar mínar eigin minningar til að búa til staðinn. Ég þekkti hana sem sonur hennar til ellefu ára aldurs og er því með takmarkaða mynd af hennar lífi, en myndin sem ég er með er rosalega hlý og góð. Mamma mín var ótrúlega góð og mig langaði að búa til stað sem myndi að einhverju leyti halda utan um fólk og láta því líða sem best,“ segir Haraldur, en móðir hans lést í bílslysi árið 1988.

„Ég hugsa til hennar oft á dag þótt það séu liðin 35 ár síðan hún lést,“ segir hann.

Einfaldur matur er bestur

Talinu víkur að matnum, en matseðillinn er vandlega úthugsaður, eins og annað hjá Önnu Jónu.

„Í grunninn er maturinn franskur, en ekki „fínn franskur“ heldur frekar „sveitamömmu“-franskur. En svo er alls konar blandað inn í. Ég er nefnilega matvandur og því var ekkert auðvelt að búa til matseðilinn því ég vildi hafa allt á matseðlinum sem mér þætti gott,“ segir Haraldur og brosir út í annað.

Hvað borðar þú alls ekki?

„Það er ekki endilega það sem ég borða ekki heldur finnst mér erfitt þegar ég veit ekki hvað ég er að borða; þegar maturinn er of flókinn. Ég vil hafa mat einfaldan, eins og barn,“ segir Haraldur kíminn.

Veitingastaðurinn er opinn frá átta á morgnana til ellefu á kvöldin og er boðið upp á morgunmat, dögurð, hádegismat og kvöldverð.

„Mig langar líka síðar að bjóða upp á morgunmat allan daginn því mér finnst það eiginlega besta máltíðin.“ 

Stutt að fara út að borða

Haraldur hyggst ekki opna fleiri staði og segist ætla að láta þennan duga, enda liggur þrotlaus vinna að baki honum. Hann hefur í nógu að snúast, en Haraldur er hættur hjá Twitter, og vinnur nú sjálfstætt.

„Ég er með Önnu Jónu og önnur verkefni og er svo að ákveða hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór,“ segir hann og brosir.

Anna Jóna er í senn smart og notalegur staður.
Anna Jóna er í senn smart og notalegur staður.

„Mér finnst mjög gaman að geta einbeitt mér að mínum eigin verkefnum og sett fullan kraft í þau.“

Skreppurðu yfir götuna á hverjum degi til að fá þér að borða?

„Ekki ennþá. Þetta hefur verið svo lengi í vinnslu að þetta er enn hálfóraunverulegt. Mig langar líka að hafa þetta sérstakt þegar ég kem,“ segir hann og segir hæg heimatökin að bjóða frúnni út að borða.

Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?

„Þar sem ég hannaði matseðilinn er allt í uppáhaldi.“

Ítarlegt viðtal er við Harald í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert