Kjöthöllin á Háaleitisbraut lokar

Sigríður Björnsdóttir, Sveinn Christensen og Anna Björk Sveinsdóttir til hægri.
Sigríður Björnsdóttir, Sveinn Christensen og Anna Björk Sveinsdóttir til hægri. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölskyldufyrirtækið Kjöthöllin á Háaleitisbraut 58-60 í Reykjavík, sem er með elstu verslunar- og kjötvinnslufyrirtækjum landsins, heyrir sögunni til klukkan fjögur í dag, en þá skella bræðurnir Sveinn H.H. Christensen og Björn I.H. Christensen kaupmenn í lás.

Sveinn hefur séð um verslunina en minnkar nú við sig vinnu vegna aldurs. „Þetta er orðið ágætt hérna en við bræður höldum áfram með verslunina í Skipholti 70 sem fyrr,“ segir Sveinn.

Christian H. Christensen, faðir bræðranna, stofnaði fyrirtækið 1944 og rak verslun og kjötvinnslu á Klömbrum á Klambratúni fyrstu árin. „Ég fæddist 1943 og ólst upp í þessu,“ rifjar Sveinn upp. „Ég var notaður til ýmissa verka strax í barnaskóla og hef unnið hérna í föstu starfi síðan ég var 17 ára en við bræðurnir og fjölskyldur okkar tókum við fyrirtækinu 1974.“

Kjötvinnslan var flutt í húsnæði verslunarinnar á Háteigsvegi 2 1953. Þegar ný verslun var opnuð í Skipholti árið 1966 var kjötvinnslan flutt þangað en Sveinn rak áfram verslunina á Háteigsveginum þar til hún var flutt í húsnæðið á Háaleitisbraut, sem bræðurnir keyptu 1982. Unnur J. Birgisdóttir, eiginkona Sveins, sá um uppgjör og innkaup þar til fyrir nokkrum árum og Sigfríður Friðjónsdóttir, eiginkona Björns, hefur séð um bókhaldið. „Dætur okkar, Anna Björk H. Sveinsdóttir og Sigríður H. Björnsdóttir, hafa í auknum mæli tekið við stjórninni og barnabörnin hafa farið hérna í gegn þannig að þetta hefur verið sannkallað fjölskyldufyrirtæki alla tíð,“ leggur Sveinn áherslu á.

Nánar er fjallað um Kjöthöllina í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert