Rétt í þessu féllst dómari við Héraðsdóm Suðurlands á kröfu Lögreglustjórans á Suðurlandi um gæsluvarðhald yfir þeim tveimur karlmönnum sem handteknir voru í tengslum við rannsókn lögreglu á andláti í heimahúsi á Selfossi í fyrradag.
Lögreglan á Suðurlandi lagði fram kröfuna í gær og boðaði dómari til þinghalds klukkan ellefu í dag.
Mennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðahald til 5. maí næstkomandi á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Rannsókn lögreglu heldur áfram af fullum þunga og hefur Lögreglustjórinn á Suðurlandi notið aðstoðar m.a. tæknideildar lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu sem og Lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að ekki sé hægt að veita frekar upplýsingar um málið að svo stöddu vegna ríkra rannsóknarhagsmuna.