„Það þarf að hætta þessari vitleysu“

Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Á tveimur árum hefur heildarfjöldi slysa hjá vegfarendum sem nota reiðhjól, rafmagnsreiðhjól eða rafmagnshlaupa­hjól aukist um 72% og í tilfelli alvarlegra slysa og banaslysa er fjölgunin næstum því tvöföld. Yfir þetta þriggja ára tímabil hafa þrír látist í umferðinni, en 186 slasast alvarlega. Þetta er meðal þess sem má lesa úr tölum Samgöngustofu um slys í umferðinni. Sérfræðingur hjá Samgöngustofu segir ólíklegt að slysum fækki nema farið verði í róttækar breytingar á notkun rafmagnshlaupahjóla, en stofnunin hóf í vikunni herferð sína fyrir bættum venjum í tengslum við hlaupahjólin.

26% fleiri alvarleg slys

Í fyrra jókst samtals fjöldi slysa á reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum um 17%. Þar af fjölgaði alvarlegum slysum eða andlátum þeirra sem ferðast á þessum tækjum um 26% milli ára. Kemur þessi fjölgun til viðbótar við gríðarlega fjölgun slysa fyrir þennan vegfarendahóp í fyrra, en þá fjölgaði öllum slysum í þessum flokki um 47% og alvarlegum slysum eða banaslysum um 55%. Á þessum tveimur árum hefur heildarfjöldi slysa farið úr 164 upp í 282 og fjöldi alvarlegra slysa og banaslysa úr 42 upp í 82.

Heildarfjöldi slysa á reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum hefur aukist mikið …
Heildarfjöldi slysa á reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum hefur aukist mikið síðustu ár. Sú fjölgun er öll drifin áfram af fjölgun slysa á rafmagnshlaupahjólum. Kort/mbl.is

Með þessari tölfræði er þó ekki öll sagan sögð, því fjölgunin er svo gott sem öll drifin áfram af fjölgun slysa á rafmagnshlaupahjólum, en áætlað er að sjö- til tífaldur munur sé á slysatíðni á milli reiðhjóla og rafmagnshjóla annars vegar og rafmagnshlaupahjóla hins vegar. Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu, segir slysafjöldann í jafnvægi ef horft er fram hjá rafmagnshlaupahjólum. Segir hann að miðað við aukna hjólanotkun megi í raun segja að hjólreiðamenn séu orðnir öruggari en áður. „Ökumenn eru líka orðnir vanari reiðhjólum og farnir að líta tvisvar til hliðar áður en þeir fara yfir hjólastíga,“ segir hann. Gunnar segir aukna tíðni slysa koma heim og saman við aukna notkun rafmagnshlaupahjóla undanfarin ár. 

Búið að faðma fólk í bílum

Gunnar segir þróun undanfarinna ára og áratuga hafa aukið öryggi þeirra sem aka um í bílum, en öryggismál staðið í stað hjá óvörðum vegfarendum. Þannig séu vegir fyrir bíla orðnir mun öruggari sem og bílarnir sjálfir. „Það er búið að faðma fólk í bílum, en þessi ferðamáti [hjól og hlaupahjól] er ekki öruggari en hann var áður, fyrir utan að einhverjir nýir bílar reyna að stoppa sjálfir áður en þeir keyra á óvarða vegfarendur,“ segir hann.

Tölur Samgöngustofu yfir fjölda slysa byggjast á skráningu lögreglu og segir Gunnar heildarfjölda slysa því að öllum líkindum mjög vantalinn þar sem fólk hafi ekki alltaf samband við lögreglu þegar slys verður. Þetta hafi meðal annars tölur frá Landspítalanum sýnt. Hann segir tölurnar hins vegar samanburðarhæfar milli ára og þá sé líklegra að alvarlegri slys séu með nákvæmari talningu. Getur heildarfjöldi slysa verið allt að þrefalt eða fjórfalt meiri en tölurnar sýna. Samgöngustofa hefur í könnun sinni á hjálmanotkun einnig tekið saman fararmáta fólks og getur því metið fjölda slysa miðað við notkun tækja. Eru þær tölur í samræmi við tölur frá öðrum Norðurlandaþjóðum, þ.e. það eru fjór- eða fimmfalt fleiri sem ferðast á reiðhjólum og rafmagnshjólum en á rafmagnshlaupahjólum en með tilliti til fjölda slysa eru sjö- til tífalt meiri líkur á slysum á rafmagnshlaupahjólunum.

Hjólaslysum fækkar í raun

Eitt sem vekur athygli í tölfræðinni um fjölda slysa er að þrátt fyrir aukna notkun rafmagnshjóla undanfarin ár virðist lítil sem engin fjölgun slysa verða í þeim flokki. Gunnar segir það skýrast af því að líklega séu slys á hefðbundnum reiðhjólum og rafmagnshjólm oft talin saman. Hann bendir hins vegar á að þegar heildarfjöldi þessara tveggja hópa sé talinn saman sést að slysum þar hafi í raun fækkað yfir tveggja ára tímabil. Þannig voru þau samtals 113 árið 2020 og þar af alvarleg og banaslys 31. Árið 2022 var heildarfjöldinn kominn niður í 94 slys, en alvarleg og banaslys 30. Þess ber að geta að eina banaslysið á þessum árum á reiðhjóli eða rafmagnshjóli var árið 2021.

Gunnar segir að tölur um slys segi þó heldur ekki alla söguna. Reynslan síðustu ár með slys á rafmagnshlaupahjólum er að fólk hljóti frekar andlitsmeiðsl en á reiðhjólum. Ástæðan er sú að á rafmagnshlaupahjólum stendur fólk með hendurnar þétt við líkamann og jafnvægispunkturinn er nokkuð skrítinn. Jafnframt eru dekkin á hlaupahjólunum lítil og því þarf minna að gerast svo jafnvægið fari og fólk falli. Vegna þessa hefur fólk oft lítinn tíma til að bregðast við þegar slys verður og bera hendur fyrir andlitið. Segir Gunnar að andlitsslys geti jafnframt verið mjög alvarleg andlega fyrir fólk sem verður fyrir þeim þar sem það fái lýti til frambúðar á andlitið frekar en til dæmis að beinbrotna og jafna sig á nokkrum vikum eða mánuðum.

 

Slys eftir djammið

En hver er þá lausnin til að bregðast við þessari áframhaldandi fjölgun slysa á raf­magnshlaupahjólum? Gunnar sagði við Hjólablaðið í fyrra að oft kæmu upp byrjunarörðugleikar þegar nýr vegfarendahópur kæmi fram á sjónarsviðið. Bæði ætti það við um að læra á nýju tæknina, en ekki síður að aðrir vegfarendur lærðu inn á nýja hópinn. Tíminn er þó ekki það eina sem skiptir máli í þessu tilviki. Gunnar bendir á að tíðni slysa á rafmagnshlaupahjólum skekkist mjög mikið vegna tveggja hópa; annars vegar ungra barna og hins vegar þeirra sem nota hlaupahjólin til að fara heim af djamminu.

Samkvæmt skráningu lögreglunnar eru slys á rafmagnshlaupahjólum aðfaranætur laugardags og sunnudags á milli 11 á kvöldin og fjögur um nótt samtals um 23% af öllum slysum á rafmagnshlaupahjólum. Til samanburðar er hlutfall slysa annarra vegfarendahópa á þessum tíma 3%. „Meðan við erum að nota þessi hjól undir áhrifum mun slysum fækka mjög hægt. Að sama skapi ef við ætlum að vera með of ung börn eða of kraftmikil hjól sem fara á 60-70 km/klst hraða þá breytist þetta hægt,“ segir Gunnar, en hann tekur fram að rafmagnshlaupahjól sem fari svo hratt séu ólögleg.

Mörg slys á rafhlaupahjólum Slys að næturlagi Fimm tilkynningar um …
Mörg slys á rafhlaupahjólum Slys að næturlagi Fimm tilkynningar um slys á fólki sem féll af rafhlaupahjólum bárust. Merking: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

„Það þarf að hætta þessari vitleysu og rangri hegðun og nota þau á réttan hátt,“ segir Gunnar en tekur fram að hann og Samgöngustofa séu almennt hlynnt rafhlaupahjólanotkun. Það gangi hins vegar ekki að fólk sé að fjölmenna á þessi tæki eða keyra eins og vitleysingar. Þegar hafi tveir látið lífið á rafmagnshlaupahjólum, en það virðist ekki hafa kennt landsmönnum mikið enn þá. Segir hann þjóðfélagið þurfa að þróast í rétta átt varðandi hvað það telji eðlilega notkun hlaupahjólanna, meðal annars með notkun eftir áfengisneyslu.

Reglusetning um rafmagnshlaupahjól og öryggismál þeirra var meðal þess sem ráðherra kynnti á fundi í gær, en meðal annars á að reyna að koma böndum yfir hraða tækjanna og áfengismörk. Miðað við núverandi hugmyndir myndi lögreglan þá geta mælt fólk á rafhlaupahjólum auk þess sem aldursmörk væru skýrari.

Fréttin birtist fyrst í Hjólablaðinu sem fylgdi Morgunblaðinu á föstudaginn. Hægt er að nálgast blaðið í heild í viðhenginu sem fylgir fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert