Vara­þing­maður gagn­rýnir um­mæli Páleyjar

Valgerður Árnadóttir, varaþingmaður Pírata, og Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi …
Valgerður Árnadóttir, varaþingmaður Pírata, og Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra. Samsett mynd/Hekla Aðalsteinsdóttir/Stjórnarráðið

Varaþingmaður Pírata gagnrýnir harðlega orðin sem að lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra lét falla í Reykjavík síðdegis á fimmtudag um afglæpavæðingu neysluskammta.

Þingmaðurinn segir stjórnvöld eiga að leyfa sérfræðingum að ráða för í ópíóíðafaraldrinum sem kominn sé upp hér á landi, rétt eins og í kórónuveirufaraldrinum.

Rætt var við Páley Borgþórsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi eystra, og formann lögreglustjórafélags Íslands um afglæpavæðingu neysluskammta. Páley gerði í þættinum grein fyrir afstöðu lögreglustjórafélagsins um þessi málefni.

Hluti ummæla hennar úr þættinum fóru á flug á Twitter í gær. Voru það einna helst orð hennar um fjölgun notenda ef gripið yrði til afglæpavæðingar og að lögreglustjórafélagið tæki ekki mið af sérstökum rannsóknum, sem að féllu í grýttan jarðveg.

Ummælin sem um ræðir féllu þegar rætt var um frumvarp sem áður hafði farið fyrir þingið í febrúar á 152. þingi. Málefnið hefur þó verið lengi til umræðu. 


Viðtalið má hlusta á hér að ofan. 

Þegar Páley var spurð hvaða rök félagið hefði sér til stuðnings um það að afglæpavæðing neysluskammta myndi ala af sér fleiri notendur sagði hún félagið telja að vímuefnaneysla ungmenna myndi aukast. Meira og betra aðgengi yrði að fíkniefnum og gagnrýndi hún einnig að í lögunum hafi verið lagt til að ekki mætti taka neysluskammta af einstaklingum sem væru orðnir átján ára.

Páley var svo spurð hvaða gögn félagið væri að styðjast við í ljósi þess að reynsla annarra þjóða á afglæpavæðingu neysluskammta sýni að fjölgun verði ekki á aðilum í neyslu.

„Við erum svo sem ekki með neina rannsóknarskýrslu nema bara það almenna sem að við kynnum okkur jafnóðum eins og aðrir, þetta er ekkert sem við erum að vinna sérstaklega. Við auðvitað vinnum mjög náið ofan í þessum málaflokkum og horfum í augun á skaðsemi þessarar neyslu. Hún er grafalvarleg eins og þið sjálf heyrið af allskonar sögum frá fólki sem missir fólkið sitt inn í þennan heim. Það má auðvitað búast við því að ef að varsla á neysluskömmtun verður refsilaus að þá mun neytendum fjölga,“ svaraði Páley.

Þá nefndi hún að fleiri myndu eflaust prófa fíkniefni, þá sérstaklega ungt fólk þar sem að bannregla lagana hefði mjög mikil áhrif þegar hún er í gildi.

Valgerður Árnadóttir, varaþingmaður Pírata, er ein þeirra sem að tjáði sig um ummæli Páleyjar en hún sagði þau grafalvarleg og ófagleg.

„Ummæli sem að eiga ekki við nein rök að styðjast“

Í samtali við mbl.is segir Valgerður skoðun Páleyjar byggjast á fáfræði og að hún ætti að fá áminningu í starfi vegna ummælana.

„Hún er í rauninni að lýsa sinni skoðun sem að byggist á fáfræði. Þessi skoðun sýnir bara að hún hafi ekki lesið sér til um málið eða er með nóg þekkingu til þess að tjá sig um það. Vegna þess að hún er nú í þessu valdamikla embætti og skoðanir hennar bitna á þeim sem að hún er að tala um, sem eru vímuefnanotendur þá finnst mér að hún eigi í rauninni að fá áminningu í starfi. Þetta er mjög alvarlegt og ófaglegt og fólk í hennar stöðu á ekki að leyfa sér svona ummæli sem að eiga ekki við nein rök að styðjast,“ segir Valgerður.

Spurð hvað henni finnist um ummæli Páleyjar sem varða fjölgun notenda sem byggð séu á reynslu löggæslufólks segir Valgerður ummælin „beinlínis röng“.

„Rannsóknir sýna að þeim fjölgar ekki, heldur einmitt gefur það heilbrigðis- og velferðarkerfinu tækifæri til að hjálpa þessu fólki á annan máta heldur en er gert núna. Þessi málaflokkur er auðvitað grafalvarlegur og það er enginn að leggja blessun sína yfir neyslu með því að lögleiða neysluskammta. Það er einungis verið að nálgast vandann á annan hátt og hátt sem að hefur borið árangur annars staðar og það er að afglæpavæða, að veita fólki aðstoð í staðinn fyrir að handtaka það,“ segir Valgerður.

Það eigi að treysta sérfræðingum í ópíóíðafaraldrinum

Hún bendir á að það sé kostnaðarsamt fyrir löggæslu og dómsvald að handtaka og kæra fólk fyrir litla skammta. Einnig hafi það sýnt sig að ef að fólk nái bata en eigi svo yfir höfði sér dóm sem það þurfi svo að afplána geti það orðið til þess að neysla hefjist á ný.

„Þess vegna þurfa embættismenn og pólitíkusar að sýna ábyrgð í orðum og gjörðum. Það sem að við sem að höfum kynnt okkur þennan málaflokk viljum er að tekið sé á ópíóíðafaraldrinum rétt eins og í heimsfaraldrinum. Það er að segja að sérfræðingar ráðleggi yfirvöldum hvað eigi að gera og farið sé eftir þeim ráðleggingum. Pólitíkusar eru ekki sérfræðingar í þessum málaflokki, það er fólkið sem að vinnur í þessu, hefur rannsakað þetta og er með ritrýndar rannsóknir á bak við sig.

Það er fólkið sem á að taka ákvarðanir en ekki einhverjir embættismenn og pólitíkusar. Það á að treysta sérfræðingum rétt eins og við treystum þeim í faraldrinum. Það á að treysta þeim í ópíóíðafaraldrinum,“ segir Valgerður.

Hún segir þá staðreynd að heilbrigðisráðherra hyggist bakka með frumvarp sitt um afglæpavæðingu neysluskammta mikil vonbrigði. Hún segir ríkisstjórnina núna vera að setja málið á ís og setja fram óskiljanlegar og óskýrar áætlanir í þessum málum í staðin fyrir að fara eftir ráðleggingum sérfræðinga.

„Það eru mikil vonbrigði að þessi ríkisstjórn skuli aldrei geta komið sér saman um mikilvæg málefni og setji þau á ís. Ríkisstjórn sem getur ekki tekið ákvarðanir er ekki starfhæf ríkisstjórn.“

Fordómar liggi að baki

Valgerður segir rökrétt skref að skipa faghóp sérfræðinga sem að ráðleggi ráðherrum hvað skuli gera í þessum efnum, rétt eins og gert hafi verið í Covid.

„Þetta er ópíóðafaraldur, það er fólk að deyja í hverri einustu viku og við getum ekki beðið ekkert frekar en við biðum í heimsfaraldrinum,“ segir Valgerður.

Spurð hverja hún telji ástæðuna vera að baki því að ekki sé tekið harðar á málunum segir Valgerður það vera fordóma.

„Það eru fordómar fyrir vímuefnanotendum, það er ekki litið á þá sem jafn réttháar manneskjur og okkur hin. Það er ekki boðlegt í íslensku samfélagi sem kennir sig við jafnrétti og mannréttindi,“ segir Valgerður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert