Samtök leigjenda á Íslandi ætla að stofna byggingarsamvinnufélag leigjenda með það að markmiði að byggja leiguhúsnæði undir forsjá og stjórn leigjenda sjálfra.
Þetta var samþykkt á fundi samtakanna í Breiðfirðingabúð í dag en hið nýja byggingarsamvinnufélag mun heita Pálmholt.
Með þessu vilja Samtök leigjenda bregðast við fátæktarstefnu stjórnvalda og gefa leigjendum kost á að búa við öryggi og jafnræði á húsnæðismarkaði, að því er fram kemur í tilkynningu frá samtökunum.
„Stjórnvöld hafa ekki sýnt neina viðleitni til að uppfylla þær lagalegu skyldur sínar og með því stimplað sig út sem ábyrgðaraðili í húsnæðismálum landsmanna,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að nafnið Pálmholt hafi verið valið til heiðurs Jóni frá Pálmholti, frumkvöðli að réttindabaráttu leigjenda á síðustu öld.