Allan starfsferil sinn hefur Rósa Kristjánsdóttir hjálpað fólki; fyrst sem hjúkrunarfræðingur og síðar djákni, en hún var ein af þeim fyrstu til að útskrifast úr djáknanámi. Rósa ætlar nú að njóta síðasta æviskeiðsins utan veggja spítalans en þar þekkir hún hvern krók og kima og á þaðan kærar minningar.
Rósa er um það bil að pakka saman skrifstofu sinni en áður en hún skellir í lás býður hún blaðamanni í heimsókn og leiðir hann í allan sannleikann um starf djákna sem er í senn krefjandi og gefandi. Hún segist kveðja uppfull af þakklæti.
Rósa segist hafa þjónað kvennadeildinni, allt frá árinu 1999. „Í upphafi voru þar konur sem greindust með krabbamein, fóru í aðgerðir á deildinni og voru þar í lyfjameðferð, þannig að ég fylgdi mörgum af þessum konum eftir allt ferlið,“ segir Rósa og segir fyrirkomulagið öðruvísi í dag þar sem konur fara yfir á göngudeild krabbameinslækninga.
„Svo eru þarna konur að missa fóstur og finnst þá gott að tala við aðra konu,“ segir hún og segist einnig hafa þjónað krabbameinsdeildinni, gjörgæslunni og hjarta-, lungna- og augnskurðdeild. „Ég hef þjónað öllum deildunum hér á Hringbraut nema geðdeild og Barnaspítalanum.“ Rósa þarf oft að hitta fólk sem stendur frammi fyrir að hafa fengið fréttir af erfiðum sjúkdómum sem eru jafnvel ólæknandi. Slíkar fréttir taka ekki síður á aðstandendur.
„Á gjörgæslunni var ég nánast alltaf með á fjölskyldufundum þar sem læknir og hjúkrunarfræðingur fóru yfir stöðuna og svo gat ég talað við fólk á eftir. En ég fór ekki inn þar sem ég var ekki velkomin,“ segir Rósa og segir með tímanum hafi fólki verið boðið upp á samtal við djákna sem það gat þegið eða afþakkað.
„Að taka utan um sjúkling, og kannski heila fjölskyldu, er heilmikið mál og þess vegna erum við heilt teymi sem sér um það. Við erum sálgæsluteymi spítalans, bæði prestar og djáknar,“ segir hún og segir sálgæsluna ekki einskorðast við sjúklinga og aðstandendur.
„Við sinnum líka starfsfólki og höldum fundi eftir erfið atvik og höldum utan um fólk sem hefur orðið lemstrað eftir erfiða hluti. Þá eigum við samtal um líðan þeirra og fylgjum því eftir svo fólk finni að það standi ekki eitt,“ segir hún og segist sjálf hafa þurft að sækja sér stuðning eftir erfiða daga.
„Þetta eru oft gríðarlega ögrandi aðstæður sem ég fer inn í og geta setið í sálinni,“ segir Rósa og segist oft hafa þurft að taka á honum stóra sínum eftir erfiðan vinnudag.
„Trúin hefur hjálpað mér mikið þar. Ég næ að horfa á að kannski náði ég sem fagmaður að hjálpa fólki sem var í þessum erfiðu aðstæðum.“
Ítarlegt viðtal er við Rósu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.